*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Innlent 31. ágúst 2017 18:29

Netverslun eykst um 61% milli ára

Mikil aukning hefur verið á netverslun frá Kína, en flutningageirinn stendur undir um 6,6% af landsframleiðslu hérlendis að því er fram kom á ráðstefnu SVÞ.

Ritstjórn
Anne-Claire Blet framkvæmdastjóri hjá What3words var ein þeirra sem hélt erindi á ráðstefnu SVÞ
Aðsend mynd

Á ráðstefnu SVÞ um stafræna tækniþróun í flutningageiranum sem haldin var á Grand hóteli fyrr í dag var rætt m.a. um stöðu flutningageirans og um alþjóðlega þróun sem hefur áhrif á geirann.

Anne-Claire Blet, einn af framkvæmdastjórum fyrirtækisins What3words, fjallaði um nýja tækni sem eykur skilvirkni afhendingu vörusendinga. Þ.e.a.s. sem sparar fyrirtækjum kostnað við afhendingu vöru með nákvæmari upplýsingum en áður hafa þekkst um afhendingarstað vöru.

Síðustu 2 kílómetrarnir dýrastir

Eins og bent var á ráðstefnunni eru síðustu tveir km áður en varan er afhent réttum aðila dýrasti þátturinn í því ferli sem afhending frá vöru frá sendanda til móttakenda.

Sofia Fürstenberg, framkvæmdastjóri hjá nýsköpunar fyrirtækinu BLOC, kynnti nýja tækni sem meðal annars getur leitt til að farmbréf (e. Bill of Lading) í því formi sem þau þekkjast í dag taki stórstígum framförum.

Jón Gunnarsson, samgönguráðherra, fjallaði um þær breytingar sem eru að verða á viðskiptaháttum nýrrar kynslóðar og þær stórstígu framfarir í allri tækni sem orðið hafa á allra síðustu árum og mun gjörbreyta viðskiptaumhverfi fyrritækja. Sagði hann þetta vera ögrandi verkefni sem við stöndum nú öll frammi fyrir og sem vinnumarkaðurinn mun óhjákvæmilega þurfa að aðlaga sig að.

Mikilvægi flutningageirans

Flutningageirinn greiðir um 8,1% af launum og launatengdum gjöldum á Íslandi og um 7% vinnuafls starfar í flutningageiranum. Rúmlega 6,6% af landsframleiðslu á Íslandi árið 2015 kom frá flutningageiranum og hefur samanlagt vægi geirans aukist frá árinu 1997 og má rekja aukninguna til aukinnar hlutdeildar farþegaflutninga með flugi og í vörugeymslu og stoðstarfsemi fyrir flutninga.

Á ráðstefnunni var jafnframt rætt um það að ekki fari mikið fyrir flutningastarfsemi í daglegri umræðu hér á landi. Samt sem áður er þetta ein mikilvægasta atvinnugrein landsins sem síðan þjónar öllum okkar stærstu atvinnugreinum og tryggir um leið aðgang landsmanna að vörum og þjónustu erlendis frá.

Mikil aukning netverslunar frá Kína

Í erindi Ingars Freys Ingvarssonar, hagfræðing Samtaka verslunar og þjónustu bendir hann á að lítið sé um opinber gögn til að styðjast við í skoðun á innlendri og erlendri netverslun.

Nýlegar tölur frá Íslandspósti sýna þó að veruleg aukning hefur verið á erlendum póstsendingum til Íslands. Ef við skoðum fyrstu sex mánuði þessa árs í samanburði við fyrstu sex mánuði síðasta árs er 61% aukning í netverslun. Á sama tíma er aukningin 49% frá Kína. Í fyrra var 42% aukning í fjölda sendinga til einstaklinga, 14% árið 2015 og 66% árið 2014.