Árni Sverrir Hafsteinsson
Árni Sverrir Hafsteinsson
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Árni Sverrir Hafsteinsson, forstöðumaður Rannsóknarseturs verslunarinnar, segir þróun netverslunar hafa verið heldur hægari hér á landi en í löndunum í kringum okkur. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um fjórfaldaðist salan í gegnum netið á stafræna mánudeginum svokallaða fyrir viku. Vöxturinn síðustu ár hefur þó verið mun minni en aukningin í kortaveltu ferðamanna .

„Samkvæmt skýrslu Rannsóknaseturs verslunarinnar sem kom út núna í haust nam netverslun um 3% verslunar í heild hér á landi samanborið við tölur allt upp í 11% á hinum Norðurlöndunum. Heilt yfir hefur innlend netverslun verið að aukast um í kringum 20% á milli ára undanfarna mánuði á meðan einstaka flokkar hafa vaxið mun meira. Má sem dæmi nefna dagvöru en þar hefur vöxturinn verið um 200%, það er þreföldun á veltu á milli ára,“ segir Árni sem tekur undir mikilvægi þess að vera með viðveru á netinu.

„Fólk fer í auknum mæli í rannsóknarvinnuna heima, svo það styður gríðarlega mikið við verslunina að vera sýnileg á netinu, og þeir sem eru það ekki eru að missa svolítið af lestinni. Ég hef verið að tala við verslunarfólk undanfarna daga sem eru almennt sammála um að þessir dagar hafi gengið mjög vel, þá sérstaklega mánudagurinn, hann hefði komið þeim á óvart og slegið í gegn. Þetta hefur verið allt frá engri breytingu og/eða hóflegum vexti upp í margföldun, þá sérstaklega hjá þeim sem tóku virkari þátt. Hins vegar sögðu þau fyrirtæki sem höfðu ekkert tekið þátt í þessu að þetta hefðu bara verið hefðbundnir dagar með ekkert minni verslun, og jafnvel aukningu hjá þeim sem græddu á því að fólk hefði farið á röltið milli verslana.“

Árni tekur jafnframt undir orð Marons hjá Aha.is um að verslunin sé að færast framar. „Þetta er ákveðin leikjafræði, það er verið að reyna að selja jólin áður en hinir gera það, og þá færist jólaverslunin framar, því þeir sem geta komið með góð tilboð fyrr græða á því meðan hinir verða eftir. Síðan sjáum við líka hvernig þetta hjálpar stóru fyrirtækjunum sem taka þátt í þessum dögum, því birgjarnir þeirra eru líklegri til að gefa einnig afslátt sem gerir smásalanum hérna heima kleift að selja vörurnar enn ódýrara. Þannig deila þeir kostnaðinum af því að auka afsláttinn og þess vegna erum við að sjá þessar stóru bombur þar sem afslátturinn fer í allt að 70 til 90%. Það er ólíklegra að litlu fyrirtækin geti gert þetta,“ segir Árni.

Hann segist ekki heyra á verslunarfyrirtækjum að fólk sé farið að halda aftur af sér í innkaupum vegna þess að blikur séu á lofti í efnahagslífinu. „Einhverjir höfðu áhyggjur af því en það virtist ekki á mönnum að það væri byrjað að sjást. Einhverjir aðilar sem höfðu þó verslanir með misháu þjónustustigi og verðum, töluðu um að það væri meiri vöxtur í ódýrari búðunum, sem gæti verið vísbending.“

Erum tveimur árum of seint

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir algera vitundarvakningu hafa orðið á Íslandi um mikilvægi netverslunar. „Við sáum það á þeim námskeiðum sem við erum búin að halda í haust, ég hef aldrei upplifað svona sterk viðbrögð áður. Við erum langt á eftir nágrannalöndunum en það sem er að gerast í þessari stafrænu þróun er að hreyfa við fyrirtækjum núna, en hefði átt að gerast tveimur árum fyrr, enda erum við í gífurlegri samkeppni við fyrirtæki erlendis,“ segir Andrés sem fagnar sérstaklega því að Já.is hefur nýlega sett á laggirnar sérstaka leitarvél fyrir íslenska vefverslun.

„Það er frábært framtak sem ætti að hjálpa okkur í að halda netverslun heima, því það sem hræðir okkur er aukningin yfir landamærin. Vegna niðurgreiðslu á póstsendingum frá Kína, sem er flokkað sem þróunarríki samkvæmt alþjóðasamningum um póstsendingar, standa vestræn fyrirtæki höllum fæti í samkeppninni, og má nefna sem dæmi að það koma 40 þúsund pakkar á dag frá Kína inn til Danmerkur.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .