Forsvarsmenn Nettó segja netverslun í samkomubanni hafi í för með sér að netverslun sé komið á stað sem ekki var stefnt á fyrr en eftir fimm ár. Nettó hefur nú hafið heimkeyrslu á dagvöru í gegnum netverslun sína á Egilsstöðum, Eyrarbakka, Hvanneyri, Hveragerði, Höfn, Þorlákshöfn og Stokkseyri.

„Draumurinn er auðvitað að geta boðið upp á heimsendingu í gegnum netverslanir okkar á sem flestum stöðum. Heimsendingin hefur verið himnasending fyrir marga á þessum fordæmalausu tímum, sérstaklega þá sem voru í sóttkví eða einangrun. Margir komu á tal við okkur um að færa út kvíarnar og eru þessi nýju sveitarfélög partur af þeirri áskorun,“ segir Gísli Tryggvi Gíslason, forstöðumaður starfrænnar tækni hjá Samkaupum, en Nettó er í eigu Samkaupa.

Krónan hefur einnig flýtt áformum sínum um netverslun vegna stöðunnar og vinnur nú að prófunum á slíkri verslun . Bónus hyggst hins vegar ekki færa sig í netverslun að svo stöddu.

Sjá einnig: Krónan á netið en Bónus ekki

„Til að byrja með ætlum við að keyra út vörur á mánudögum og fimmtudögum á Egilsstöðum og á Höfn. Það sama á við um Eyrarbakka, Þorlákshöfn, Hveragerði og Stokkseyri en við vonumst til þess að geta fjölgað dögum í framtíðinni en það fer eftir eftirspurn. Við sendum hins vegar vörur heim alla daga á Hvanneyri,“ segir Gísli. Hann bendir á að viðskiptavinir Nettó geti einnig pantað á netinu og sótt vörur sem búið sé að taka saman í verslanir. Í tilkynningu frá Samkaupum segir að heimsendingar muni fara fram í gegnum aha.is og að allir starfsmenn hafa fengið ítarlega kennslu um hvernig skuli halda snertiflötum eins sótthreinsuðum og mögulegt er.

Samkaup reka 62 verslanir víðsvegar um landið. Helstu vörumerki Samkaupa eru Nettó, Kjörbúðin, Krambúðin, Háskólabúðin, Iceland, og Samkaup Strax.

Birta lífeyrissjóður hækkaði verðmat sitt á Samkaupum um 56%, úr 5,2 milljörðum í 8,1 milljarð króna samkvæmt ársreikningi lífeyrissjóðsins líkt og Viðskiptablaðið greindi nýlega frá.