Kjarni.is, sem er íslensk verslunarmiðstöð á netinu, efnir til morgunverðarfundar á veitingastaðnum Nauthól í dag þar sem fjallað er um stöðu íslenskrar netverslunar, umfang hennar og tækifæri í framtíðinni.

,,Mikill vöxtur hefur verið undanfarin ár í að opnaðar séu nýjar netverslanir og þá hefur einnig verið mikið lagt upp úr að þær séu vel hannaðar og með öruggar greiðslugáttir. Velta netverslana er að aukast að sama skapi milli ára og vöruúrval eykst jafnt og þétt,” segir Þór Sigurðsson, sem stýrir vefsíðunni Kjarni.is.

Tæplega 600 íslenskar netverslanir eru skráðar hjá kjarni.is og fer þeim fjöldandi. Þór segir að mikill áhugi sé fyrir hendi á netverslunum hér á landi og til að mynda sé uppselt á morgunverðarfundinn á morgun.

,,Það hefur orðið um 400% aukning á netverslun á Íslandi á síðustu 5 árum samkvæmt könnun Hagstofunnar. Verslun með fatnað, skó og íslenska hönnun á netinu hefur á undanförnum árum aukist til muna sem og mikil vitundarvakning hefur orðið með samanburð á verð og gæðum á vörum. Þrátt fyrir að netverslun hafi aukist mjög hér á landi erum við enn talsvert á eftir nágrannalöndunum þannig að mörg tækifæri eru fyrir hendi,” segir Þór.

Hann segir að stærstur hluti kvenna kaupi skó, föt og íþróttavörur og er fjölmennasti aldurshópurinn konur 16-24 ára en meirihluti karlmanna kaupir raftæki og myndavélar og þar er fjölmennasti aldurshópurinn 25-54 ára.

Meðal þeirra sem flytja erindi á fundinum í dag eru Emil B. Karlsson frá Rannsóknarsetri verslunarinnar, dr. Valdimar Sigurðsson, dósent við HR, Bríet Pálsdóttir frá Advania og Katla Hreiðarsdóttir, sem rekur verslunina Systur og makar.