Bandaríska netverslunin Etsy hefur keypt bresku netverslunina Depop fyrir 1,6 milljarða Bandaríkjadollara, um 190 milljarða króna. BBC greinir frá.

Depop er smáforrit, samfélagsmiðill og netverslun, þar sem að notendur geta keypt og selt notuð föt. Um 90% notenda fyrirtækisins eru undir 26 ára aldri sem að er hópur sem að leggur meiri áherslu á sjálfbæra neyslu. Í dag eru skráðir notendur Depop um 30 milljónir manns í 150 löndum.

Etsy hefur hingað til verið vinsælla á meðal eldri neytenda en ásamt því að bjóða upp á notaðar vörur og föt eru einnig til sölu handunnar vörur ásamt handverksvörum. Með kaupunum reynir fyrirtækið að laða til sín yngri markhópa.

Sjá einnig: Etsy hækkaði um 11% í kjölfar lofs Musk

Netmarkaðir sem að sérhæfa sig í endursölu, líkt og Ebay, Vinted og Depop, hafa verið að sækja í sig veðrið í heimsfaraldrinum og hefur sala þessara netverslana stóraukist. Búist er við áframhaldandi vexti í sölu á notuðum fötum og talið er að heildarvirði markaðarins verði um 64 milljarðar Bandaríkjadollara innan fimm ára.