Netverslun hefur á síðustu árum stóraukist út um allan heim, en hefur átt hægari uppgang á Íslandi. Á meðan almennar verslanir hafa boðið upp á sérstök "black friday" tilboð að bandarískri fyrirmynd, hafa netverslanir landsins boðið upp á svokölluð "cyber monday" tilboð.

Guðmundur Magnason, framkvæmdastjóri Heimkaupa, segir netverslun á Íslandi aftur á móti vera í miklum uppgangi. „Við skynjum það að fleiri og fleiri eru að klára innkaupin á netinu. Hjá okkur hefur pöntunum fjölgað og pantanir stækkað. Fólk er farið að treysta netverslun og vill bara geta klárað gjafakaupin á netinu.“

Ýmsar kenningar hafa verið á lofti í gegnum tíðina, sem reyna að rökstyðja hægan uppgang netverslunar á Íslandi. Samkvæmt Guðmundi hafa Samtök verslunar og þjónustu til að mynda sagt að erfitt sé að keppa við erlendar netverslanir og að nálægð Íslendinga við verslun dragi almennt úr hvata til þess að fjárfesta í rafrænni verslun.

Guðmundur gefur þó lítið fyrir þær kenningar. „Mín kenning er sú að vefverslun hafi verið að fara af stað í nágrannalöndum okkar, þá vorum við að fara í gegnum mestu efnahagsþrengingar okkar fyrr og síðar. Á þessum tíma lentu allir helstu smásalarnir í höndum áhættufælna fjárefsta, til að mynda lífeyrissjóðum. Þessir aðila höfðu lítinn áhuga á því að pæla í framtíðinni og almennri þróun í bransanum.“

Guðmundur bendir einnig á að netverslun hafi hingað til ekki verið neinn alvöru valkostur. „Hingað til hefur netverslun oft verið hliðarverkefni hjá áhugamönnum, sem hafa kannski verið með einhvern frænda að sjá um netið. Það er mikilvægt að hafa þrjá hluti á lási og þeir eru vöruval, efni á vefnum og svo upplifunin sem þú færir viðskiptavininum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.