*

sunnudagur, 19. september 2021
Innlent 19. mars 2020 15:07

Netverslun vaxandi í ljósi aðstæðna

Smartmedia og TVG Xpress í samstarf með vöruafhendingar, svo hægt er að sækja vörur eða fá sendar heim.

Ritstjórn
Hannes A. Hannesson er forstöðumaður TVG Xpress og Hjörvar Hermannsson er framkvæmdastjóri Smartmedia.
Aðsend mynd

Mikil aukning hefur verið í netverslun undanfarnar vikur eins og gefur að skilja vegna samkomubanns og aukinnar heimasetu vegna útbreiðslu Covid 19 kórónaveirunnar á landið og heiminn allan.

Smartmedia og TVG Xpress hafa nú ákveðið að fara í samstarf með það að markmiði að bjóða upp á fjölbreyttara úrval afhendingarleiða, þar sem hægt er að sækja sendingar í húsnæði TVG Xpress í Vatnagörðum, í box á völdum afgreiðslustöðum eða heim að dyrum samdægurs.

Smartmedia og TVG Xpress, dótturfélag TVG-Zimsen hafa undirritað samstarfssamning sem ætlað er að skila stórauknu framboði í afhendingarleiðum fyrir viðskiptavini Smartmedia. Yfir hundrað fyrirtæki keyra netverslanir sínar á hugbúnaði frá Smartmedia en netverslun hefur líklega aldrei verið stærri en nú og mun þetta því auðvelda alla sölu til muna. 

„Við hjá Smartmedia erum virkilega ánægð með þetta samstarf og fögnum aukinni samkeppni á markaði þegar kemur að afhendingu á vörum,“ segir Hjörvar Hermannsson, framkvæmdastjóri Smartmedia.

„Netverslun hefur aukist mikið undanfarin ár, og þá ekki síst undanfarnar vikur í þeim aðstæðum sem við erum að glíma við í þjóðfélaginu í dag. TVG Xpress hefur góða þekkingu og reynslu af þjónustu við netverslanir og mismunandi afhendingarmöguleika en það er mikil þörf á fjölbreyttum afhendingarmöguleikum í samfélaginu núna og því er þetta kærkomið samstarf,“ bætir hann við.

Hannes A. Hannesson forstöðumaður TVG Xpress segir félagið hafa verið að auka þjónustu sína við netverslanir með mismunandi afhendingarmöguleikum.

„Nú geta viðskiptavinir sótt sendingarnar sínar til okkar í Vatnagarða 22, í box á valda afgreiðslustaði eða fengið heimsent samdægurs.“ segir Hannes. „Það er ljóst að ljósi aðstæðna fer netverslun bara vaxandi og það er mikilvægt að geta mætt viðskiptavinum á þeirra forsendum, hvort sem þeir vilja sækja sjálfir eða fá sent.“