Borgaryfirvöld í New York í Bandaríkjunum vilja bjóða þarlendum og erlendum fyrirtækjum sem vinna að nýsköpun og tækni sem nýtist í borgarumhverfi til að kynna sig og sjá aðra á þriggja daga tengslaráðstefnu í lok september og byrjun október. Um er að ræða átak á vegum borgaryfirvalda sem nefnist World to NYC.

Hlynur Guðjónsson, ræðismaður Íslands og viðskiptafulltrúi á aðalræðisskrifstofu Íslands í New York, segir í samtali við Viðskiptablaðið, yfirvöld í borginni leitast við að koma frumkvöðlum sem vinni að tækni sem nýtist borgarumhverfinu og fjárfestum saman á einn stað. Þá sé borgin kynnt þeim sem vilji hefja starfsemi í borginni. Hann segir Michael Bloomberg, fyrrverandi borgarstjóra, hafa stutt vel við bakið á nýsköpun og komið mörgum frumkvöðlasetrum á laggirnar.

„Þarna myndast aðallega tengsl á milli fólks, frumkvöðla og fólks í ofboðslega lifandi og stóru sprotaumhverfi,“ segir hann og bendir á að mörg íslensk fyrirtæki eigi vel heima á ráðstefnunni.

Á ráðstefnunni snæða þátttakendur meðal annars hádegisverð með forkólfum í stjórnmálum og viðskiptum í borginni, hlusta á sögur forsvarsmanna sprotafyrirtækja í borginni og hitta fjárfesta ásamt því að fá kynningu á því hvernig best sé að haga málum sínum vilji þau starfa í borginni.

Nánar er fjallað um málið á vefsíðu World to NYC