Í tæp 25 ár hefur New York ríki í Bandaríkjunum falið fjárlagahalla sinn með bókhaldabrellum sem felast helst í því að færa fjármagn á milli reikninga.

Þetta kemur fram í nýrri úttekt sem unnin var um fjármál ríkisins og birt var í gær. Reuters fréttastofan greinir meðal annars frá því að fjármagn sem þegar hafi verið eyrnamerkt ákveðnum verkefnum hafi verið nýtt í önnur útgjöld án þess að það hafi komið fram í bókhaldi ríkisins að hinni eyrnamerkti sjóður hafi verið tæmdur.

Nokkuð var fjallað um málið í fjölmiðlum vestanhafs í gær en það sem vekur hvað mesta athygli er að svo virðist sem ekki hafi verið gert almennilega grein fyrir fjárreiðum í meginsjóð ríkisins. Þannig má sem dæmi nefna að framlög frá alríkisstjórninni eru ekki bókfærð auk þess sem einstaka tekjuliðir, svo sem umhverfis- og samgönguskattar eru heldur ekki bókfærðir né eyrnamerktir öðrum útgjöldum eins og gert var ráð fyrir þegar þeir voru lagðir á.

Gert er ráð fyrir 9 milljarða dala halla á fjárlögum þessa árs (sem endar 31. mars) en svo virðist sem hann kunni að verða enn hærri eftir að búið er að leysa úr og greina frá þeim atriðum sem kunna að hafa verið „falin“ eða sett til hliðar við meginbókhald ríkisins.

Frá árinu 1985 hefur ríkið sett upp 515 nýja reikninga en nú eru um 720 reikningar í eigu ríkisins. Þegar talað er um reikninga er átt við sjálfstæða sjóði sem eru í eigu ríkisins en eru eyrnamerktir ákveðnum verkefnum. Sem dæmi má nefna að einn stærsti sjóður ríkisins, the Dedicated Highway and Bridge Trust Fund, sem eins og nafnið gefur til kynna er ætlað er að byggja og halda við vegum og brúm, hefur verið tæmdur svo oft að aðeins 35% af innkomu sjóðsins hefur verið nýtt í þau verkefni sem honum er ætlað að sinna en allt annað fjármagn verið notað til að fela eða minnka fjárlagahalla ríkisins.