New York Times Co., móðurfélags samnefnds dagblaðs í Bandaríkjunum mun leita leiða til að fækka starfsmönnum á ritstjórn blaðsins um hundrað og til viðbótar verður einhverjum starfsmönnum sagt upp í öðrum deildum fyrirtækisins, án þess að nákvæm tala hafi verið gefin upp. Fyrirtækið mun einnig loka á nýtt NYT Opinion snjallsímaforrit, sem ekki hafði náð þeim vinsældum sem til var ætlast.

Í frétt Marketwatch segir að uppsagnirnar séu hluti af hagræðingaraðgerðum í fyrirtækinu, en nauðsynlegt sé að koma böndum á kostnaðinn og er vitnað í bréf sem Arthur Sulzberger útgefandi og Mark Thompson forstjóri fyrirtækisins sendu starfsfólki.

Fyrirtækið mun bjóða starfslokasamninga til að hvetja fólk til að segja sjálft upp, en ef ekki nægilega margir taka boði fyrirtækisins verður gripið til uppsagna. Fækki starfsmönnum á ritstjórn um 100, eins og að er stefnt, er um að ræða 7,5% af heildarstarfsmannafjölda á ritstjórn blaðsins.