Bandaríska dagblaðið The New York Times (NYT) minnist í dag Sigurðar Helgasonar, fyrrverandi forstjóra Flugleiða sem lést þann 8. febrúar síðastliðinn, 87 ára að aldri.

Í grein NYT kemur fram að Sigurður hafi verið brauðryðjandi í flugsamgöngum yfir Atlantshafið með því að bjóða ódýrar ferðir á milli Bandaríkjanna og Evrópu með viðkomu á Íslandi.

Fram kemur að íslensku flugvélarnar, hafi iðulega verið þétt setnar og hægfara á meðan samkeppnisaðilar flugu á hraðskeiðari þotum. Þannig hafi það tekið 10 – 12 tíma fyrir Bandaríkjamenn að komast til Evrópu.

Blaðið rifjar upp auglýsingaslógan félagsins, “We’re slow but we’re low” en Flugleiðir fluttu farþega sína með DC-8 vélum alla leið til Lúxemborgar. Á fimmta áratugnum var ekkert flugfélag í Lúxemborg þannig að það var eina ríkið sem leyfði íslensku farþegaflugfélagi að lenda með farþega, sem síðan héldu för sinni áfram með lest eða rútu.

Með gömlum og ódýrum flugvélum, iðjusömum flugmönnum og hámarksnýtingu vélanna tókst Flugleiðum að ná 2% markaðshlutdeild farþegaflutninga yfir Atlantshafið í lok sjöunda áratugarins auk þess sem 90% tekna félagsins komu erlendis frá að því er NYT greinir frá.

Blaðið segir að undir forystu Sigurðar hafi félagið vaxið jafnt og þétt og leitt til hugarfarsbreytinga hjá íslenskum viðskiptamönnum.

Sjá grein New York Times í heild sinni.