News Corp, fjölmiðlaveldi Ruperts Murdoch, hefur komist að samkomulagi við hluthafa sína um að greiða þeim 139 milljónir dala, andvirði um 16,3 milljarða króna, í bætur vegna símhlerunarhneykslisins og yfirtökunni á sjónvarpsefnisframleiðandanum Shine Group.

© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Nokkrir hluthafar höfðuðu málið gegn stjórnarmönnum News Corp í mars 2011 vegna yfirtökunnar á Shine. Það fyrirtæki var í eigu Elisabeth Murdoch, dóttur Ruperts, og vildu hluthafarnir meina að News Corp hefði greitt of hátt verð fyrir fyrirtækið. Sérstaklega var fundið að því að stjórnarmennirnir hefðu ekki staðið í lappirnar gagnvart Rupert sjálfum.

Þegar í ljós kom að blaðamenn breska blaðsins News of the World, höfðu hlerað talhólf fjölda fólks í Bretlandi var dómsmálið víkkað og bóta krafist af stjórnarmönnunum fyrir að hafa ekki haft nægilegt eftirlit með starfsmönnum fyrirtækisins.

Hvorki News Corp né stjórnarmennirnir sjálfir munu þó bera kostnaðinn af greiðslunum, heldur mun stjórnendatrygging stjórnarmannanna standa undir þeim.