News Corp, fjölmiðlafyrirtæki Rupert Murdoch, hagnaðist um 812 milljónir dala á fyrri hluta árs, eða sem nemur 111 milljörðum króna. Hagnaðurinn jókst um 80% á milli ára, að því er kemur fram í grein Financial Times.

News Corp gefur meðal annars út Wall Street Journal, The Australian, The Times og The Sun. Auk þess rekur félagið upplýsingaveitur á borð við Dow Jones og MarketWatch.

Tekjur félagsins jukust um 11% á milli ára og námu 10,4 milljörðum dala, um 1.400 milljarða króna. EBITDA félagsins nam 165 milljónum dala á tímabilinu.

Vöxtur í auglýsingatekjum og áskrifendum á vefmiðlum skilaði félaginu auknum tekjum og hagnaði. Þannig jukust áskriftartekjur um 8% og auglýsingatekjur um 14% á milli ára.