Síðasta prentaða forsíða Newsweek
Síðasta prentaða forsíða Newsweek
© None (None)

Stjórn útgáfufélagsins IBT Media áformar að hefja útgáfu á vikuritinu Newsweek á prentuðu formi eftir áramótin, líklega í janúar eða febrúar. Útgáfurisinn IAC/InterActiveCorp hætti útgáfunni í október í fyrra og var stefnan sett á að sameina það útgáfu netmiðilsins The Daily Beast undir heitinu Newsweek Global undir ritstjórn Tinu Brown. Með þessu átti að spara 40 milljónir dala, jafnvirði tæpra 5 milljarða króna. Þau áform gengu hins vegar ekki þrautalaust fyrir sig, sparnaðurinn varð ekki að veruleika og var afráðið að selja útgáfu Newsweek í ágúst.

Tina Brown hætti störfum í september með þeim orðum að hún hafi snúið baki við fjölmiðlum.

Bandaríska dagblaðið The New York Times hefur eftir Jim Impoco, sem settist í ritstjórastól Newsweek á eftir Brown, að stjórn IBT Media horfi til áskriftarfyrirkomulags breska vikuritsins Economist. Stefnt sé að því að tekjustreymi Newsweek komi í meiri mæli en áður frá þeim sem kaupi tímaritið í áskrift og lausasölu en sölu auglýsinga og muni verðið því hækka. Impoco, sem var innanbúðarmaður hjá The New York Times, segir í samtali við blaðið ekki telja að nýir eigendur þurfi að punga út jafn háum fjárhæðum í prentkostnað og fyrri eigendur enda standi yfir viðræður við bæði prentsmiðjur og dreifingaraðila.