Bandaríska tímaritið Newsweek, sem er í eigu Washington Post, verður að öllum líkindum selt.

Þetta kom fram í samtali Donald Graham, stjórnarformanns Washington Post við blaðið í dag. Rekstur Newsweek hefur gengið illa síðustu ár og tímaritið skilað tapi. Þá er jafnframt búist við tapi á rekstri þess í ár.

Graham segir að margt bendi til þess að tímaritinu sé betur komið í höndum annarra aðila. Nú þegar hafi verið leitað til fjárfestingabankans  Allen & Company um að undirbúa söluferli.

Í frétt Washington Post kemur fram að Newsweek sé ekki eina tímaritið sem eigi í rekstrarerfiðleikum um þessar mundir. Það sama gildi um Time og önnur þekkt fréttatímarit. Að miklu leyti megi rekja það til mikils samdráttar í auglýsingatekjum auk þess sem ásrifendum fækki stöðugt þar sem fleiri treysti á ókeypis fréttir á netinu.

Newsweek hefur komið út frá árinu 1933 en Washington Post keypti tímaritið árið 1961.