Breska verslanakeðjan Next hefur tilkynnt að hagnaður ársins sem var að líða verði að öllum líkindum meiri en greiningaraðilar hafa spáð. Í Vegvísi Landsbankans kemur fram að sérfræðingar á vegum Bloomberg telja líklegt að gengi bréfa í Next muni ná sínu hæsta gildi í tvö ár.

Í tilkynningunni kemur ennfremur fram að búist sé við að hagnaður ársins 2005 fyrir skatta verði um 450 m.GBP, sem er um 7% umfram meðalspár.

Í vegvísi er bent á að forsvarsmenn Next segja arðsemi félagsins meiri en þeir bjuggust við. Ástæðu þess megi rekja til þess að meira seldist af vörum fyrir jólin á fullu verði en gert var ráð fyrir og verða því færri vörur seldar á niðursettu verði á vetrarútsölunum sem hófust fyrir skömmu. Mikil aukning varð á sölu í gegnum pöntunarlista félagsins, Next Directory, og jókst hún um 14% frá því í fyrra. Sala á 21 vikna tímabili sem lauk þann 24. desember var auk þess góð og nam söluvöxturinn 9,8%.

Gengi Next hefur hækkað umtalsvert í dag segir í Vegvísi. Á árinu 2005 lækkaði gengi félagsins um 2,3%. Frá ársbyrjun 2005 fram í október varð nokkur lækkun á gengi félagsins en eftir þann tíma tók gengið stökk upp á við, eins og sést á myndinni hér að ofan og nemur hækkunin frá 11. október til dagsins í dag 24%.