Talið er að Nextel Communication hafi áhuga á samruna við Sprint Corp. Þó svo að samruninn sé langt í frá að vera tryggður virtust fjárfestar líta á hann sem mjög hagstæðan kost fyrir báða aðila. Samruninn sem er metinn á 33 milljarða dollara mun spara báðum fyrirtækjunum mikinn kostnað við viðhald og uppbyggingu á samskiptaneti sínu að því er kemur fram í Vikufréttum MP Fjárfestingabanka.

Hlutabréfaverð í báðum félögunum hækkaði í síðustu viku. Samruninn gerir sameinað fyrirtæki að einu þvi stærsta í geiranum og gæti það farið í samkeppni við Cingular sem fyrir stuttu yfirtók AT&T Wireless. Hlutabréfaverð Nextel hækkaði um 2,98% og endaði í 29,76 dollurum á hlut og Sprint endaði í 24,14 dollurum á hlut sem er 4,14% hækkun yfir vikuna.

Verð á hlutabréfum Motorola lækkaði mikið í kjölfar þessarra frétta um Nextel og Sprint en Motorola hefur í gegnum árin útvegað Nextel fjarskiptanetið sem það hefur þurft. Ef samruninn gengur í gegn óttast fjárfestar að Nextel muni ekki lengur hafa þörf fyrir fjarskiptanet Motorola heldur skipta alfarið yfir á net Sprint Corp. Hafði þetta þau áhrif að verð á hlutabréfum i Motorola lækkaði um 10,77% í vikunni og endaði í 16,34 dollurum á hlut.

Byggt á Vikufréttum MP Fjárfestingabanka.