Hluthafar BAA, stærsta rekstraraðila flugvalla í Bretlandi, hafa neyðst til að koma með nýtt hlutafé upp á 400 milljónir punda inn í félagið. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa viðurkennt að tvísýnt sé með hvort 9,6 milljarða punda endurfjármögnun félagsins takist. Stjórn félagsins tilkynnti á sama tíma að hluthafar hefðu komið inn með nýtt fé, undir forystu spænska fjárfestingafélagsins Ferrovial.

Stjórn BAA reynir nú að semja við eigendur skuldabréfa í félaginu, sem nema alls 4,7 milljörðum punda, um að skipta bréfunum út fyrir nýja skuldabréfavafninga með tryggingum í fasteignum félagsins, sem telja meðal annars flugvellina Heathrow, Gatwick og Stansted.

Einnig er fyrirhugað að taka stórt bankalán með veði í flugvöllunum í Edinborg, Glasgow, Aberdeen og Southampton

BAA skuldsetti sig um 9,6 milljarða punda fyrir tveimur árum, þegar áðurnefnt Ferrovial keypti félagið á 10,3 milljarða punda. Fjárfestingin hefur reynst Ferrovial mikill höfuðverkur, en kvartanir vegna þjónustustigs, of tíðum mannabreytingum í stjórnunarstöðum og skuldastöðu hafa reynst eigendum BAA óþægur ljár í þúfu.