Pervez Musharraf, forseti Pakistan, lýsti í gær yfir neyðarástandi í landinu. Í kjölfarið tók hann sér alræðisvald og lýsti yfir neyðarlögum. Allar útsendingar einkafjölmiðla hafa verið rofnar og hæstiréttur leystur upp. Á næstu vikum stóð til að hæstiréttur Pakistan myndi gefa álit sitt á því hvort Musharraf hafi verið kjörgengur í forsetakosningum síðast liðinn október þar sem hann er einnig æðsti yfirmaður hersins.

Musharraf segir að legi hafi við klofningi í landinu að því er fram kemur á Sky News. Hann hafi óttast aðgerðarleysi dómstóla yfir dæmdum glæpamönnum, til að mynda hryðjuverkamönnum og hafi horft upp á framkvæmdarvaldið aðgerðarlaust.

Musharraf hefur verið mikill bandamaður vestrænna ríkja í baráttunni við hryðjuverkamenn og hefur hann átt fullt í fangi við að halda frið og ró í sínu eigin landi.

Hins vegar hafa yfirvöld í Bandaríkjunum og ríkja í Evrópu hafa gagnrýnt aðgerðir forsetans og  utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem vonast var til þess að haldnar yrðu lýðræðislega kosningar í Pakistan eins og fyrr hafði verið stefnt á.

Hann hefur beðið Bandaríkin og önnur ríki í Evrópu um að vera þolinmóð gagnvart sér en minnti þau á sama tíma á að vestræn ríki hafi um aldir þróað með sér lýðræði sem ekki sé hægt að búa til á stuttum tíma í Pakistan. Musharraf leggur þó áherslu á að aðgerðirnar í dag séu þáttur í því að auka lýðræði í landinu.