Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) standast ákvæði neyðarlaganna kröfur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu. Það á einkum við ákvæði varðandi forgang sem innstæðum var veittur og ráðstafanir íslenskra stjórnvalda á grundvelli laganna.

ESA  tilkynnti þetta með bréfi dagsett 4. desember sl. vegna kvörtunar hóps kröfuhafa á hendur gömlu bönkunum, SPRON og Sparisjóðabanka Íslands vegna aðgerða íslenskra yfirvalda í tengslum við setningu neyðarlaganna nr. 125/2008.

„Í kvörtununum var reynt að halda því fram að nokkrar aðrar leiðir hefðu verið færar og ESA fellst á það sjónarmið stjórnvalda að neyðarlögin og ákvarðanir FME hafi verið einu aðgerðirnar sem voru trúverðugar við þær aðstæður sem uppi voru,“ segir í tilkynningu forsætisráðuneytisins.

Tekið er sérstaklega fram í bráðabirgðaniðurstöðunni að ekki sé fjallað um hugsanlega mismunun á milli innlendra og erlendra innstæðueigenda.

Eftirfarandi er stutt sundurliðun helstu málsástæðna og niðurstaða ESA um þær samkvæmt samantekt forsætisráðuneytisins:

a. Mismunun á grundvelli 40. gr. EES:

ESA kemst að þeirri bráðabirgðaniðurstöðu að neyðarlögin geri engan greinarmun á grundvelli þjóðernis og feli því ekki í sér mismunun á grundvelli þjóðernis. Að auki eru ráðstafanirnar óháðar búsetu kröfuhafa eða frá hvaða landi krafan stafar.

Hins vegar komi til skoðunar hvort ráðstafanirnar feli í sér ígildi óbeinnar mismununar gagnvart almennum kröfuhöfum (þ.e. með forgangi innstæðna). ESA færir rök fyrir því að almennir kröfuhafar og innstæðueigendur hafi ekki verið í sambærilegri stöðu hvað varðar neyðarráðstafanir FME og því hafi ekki verið um mismunun að ræða í skilningi 40. gr. EES-samningsins.

ESA skoðar jafnframt stöðu almennra kröfuhafa gagnvart rétthafa ábyrgða (“ guarantee holders ”), en ábyrgðir voru færðar yfir í nýju bankana. Að mati ESA er staða rétthafa ábyrgða ekki sambærileg við stöðu almennra kröfuhafa (lánastofnana). Einnig hafi ESA engar upplýsingar sem gefi til kynna að þjóðerni eða búseta rétthafa ábyrgða eða staður þar sem til undirliggjandi kröfu var stofnað hafi skipt máli við flutning á ábyrgðum í nýju bankana.

b. Höft á fjármagnsflutninga, óháð mismunun (“Non-discriminatory restrictions”):

ESA tekur til skoðunar hvort í ráðstöfunum íslenskra yfirvalda hafi falist höft á fjármagnsflæði, óháð því hvort um mismunun væri að ræða. Rökin fyrir slíkri fullyrðingu væru þau að breytingar í forgangsröðun ótryggðra krafna á hendur gömlu bönkunum geti í framtíðinni dregið úr vilja fjármálastofnana til að veita öðrum fjármálastofnunum lán án sérstakra trygginga, og þar með falið í sér höft á frjálsu flæði fjármagns. Bráðabirgðaniðurstaða ESA er sú að almennir kröfuhafar (þ.e. lánastofnanir) hafi ekki glatað neinum rétti við yfirfærslu réttindanna í nýju bankana. Þar af leiðandi feli aðgerðirnar ekki í sér höft á fjármagnsflæði í skilningi 40. gr.

c. Réttlæting (e. justification):

Enda þótt fyrrgreind niðurstaða varðandi höft á fjármagnsflutninga hefði nægt ein og sér, ákvað ESA, í því skyni að tæma umfjöllun varðandi höft á fjármagnsflutningum, að kanna hvort réttlætanlegt sé í einhverjum tilvikum að takmarka frjálst flæði fjármagns með ákvæðum landslaga. Telur stofnunin einungis hægt að fallast á takmörkun þegar um sé að ræða raunverulega og alvarlega ógn við grundvallarhagsmuni samfélags. Að því gefnu að um takmörkun sé að ræða á grundvelli 40. gr. EES þá er það mat ESA að þau teljist réttlætanleg með vísan til þess markmiðs hennar að viðhalda eðlilegri starfsemi íslenska bankakerfisins. ESA vísar til þess að ákvörðun um að breyta röð kröfuhafa hafi verið tekin undir afar sérstæðum kringumstæðum enda lá fyrir raunveruleg hætta á falli alls íslenska bankakerfisins. Af þeim sökum vaknaði verulegur ótti meðal innstæðueigenda um innstæður sínar en ákvæði 6. og 9. gr. neyðarlaganna hafi verið sett með það að markmiði að tryggja þeim vernd. Það er mat ESA að tilvist bankakerfis sé ein af grundvallarstoðum ríkja, ekki aðeins m.t.t. til hagkerfa þeirra heldur og einnig m.t.t. almannaöryggis þar sem greiðslukerfi þeirra byggjast á þeim. Hrun bankakerfis geti leitt til bankaáhlaups af hálfu innstæðueigenda en það geti leitt af sér fall hagkerfis og þar með lagt í hættu samfélagið í heild sinni. Það er mat ESA að neyðarráðstafanirnar hafi ekki verið umfram það sem eðlilegt mætti telja m.t.t. til þeirra markmiða sem leitast var við að ná, þ.e. að vernda íslenska bankakerfið.

Bráðabirgðaniðurstaða ESA:

ESA býður kvartendum að senda inn viðbrögð vegna fyrrgreindra bráðabirgðaniðurstaðna fyrir 15. janúar 2010. Verði endanleg niðurstaða ESA óbreytt hafa kvartendur ekki möguleika til að skjóta málinu til EFTA-dómstólsins og málsmeðferð innan EES væri því lokið. Hins vegar er ekki loku fyrir það skotið að íslenskur dómstóll sem fjallaði um sambærilegt mál tengt bankahruninu óskaði eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins.