"Eins og þetta horfir við mér núna þá eru neyðarlögin eiginlega hálfgert kraftaverk," segir Pétur H. Blöndal. Mikil spenna var meðal þingmanna skömmu fyrir hrunið í október 2008, ekki síst vegna þess að enginn vissi hvað framtíðin myndi bera í skauti sér við fall bankanna. Gripið var til þess að setja sérstök neyðarlög til þess að halda fjármálaþjónustu gangandi og koma í veg fyrir algjört kerfishrun íslensks efnahagslífs. Pétur segir þetta hafa skipt sköpum.

"Án neyðarlaganna hefðu vandamálin dýpkað mikið. Ég er viss um að kröfuhafar gömlu bankanna græddu á þeirri aðgerð. Án neyðarlaganna hefði tap kröfuhafanna orðið algjört. Mér finnst að erlendar þjóðir eigi að líta hingað þegar því er velt upp hvernig þær eigi að takast á við hrun bankakerfis. Þó að það séu alls konar gallar í lögunum þá er megininntakið rétt og framkvæmdin öll hefur í raun verið kraftaverk. Það eru líklega ekki allir sem gera sér grein fyrir því hvað neyðarlögin gerðu fyrir okkur. Fólk getur auk þess ekki hugsað þá hugsun til enda hvernig hlutirnir hefðu getað farið, ef lögin hefðu ekki verið sett. Fjölskyldur hefðu ekki getað keypt í matinn í margar vikur eða mánuði."

_____________________________

Ítarlega er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .