Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið vinnur nú að gerð viðbragðsáætlunar sem hægt yrði að nota ef millilandaflugfélögin lenda í rekstrarerfiðleikum. Þetta kemur fram á vef Túrista en hingað til hefur engin slík áætlun verið til.

„Verkefnið er þó á byrjunarstigi og þó ekki ljóst hvaða tillögur gætu verið settar fram,“ segir í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Túrista.

Hagfræðideild Landsbankans hefur áður bent á að stóru flugfélögin tvö, Icelandair og WOW air, geti verið orðin kerfislega mikilvæg á Íslandi á sama hátt og stærstu bankar landsins. „Verulegar truflanir á starfsemi flugfélaganna eða brotfall annars, hvað þá beggja flugfélaganna af markaðnum, myndi augljóslega hafa gríðarlega afleiðingar fyrir ferðaþjónustu á Íslandi. Áhrifin yrðu einnig veruleg fyrir íslenskt efnahagskerfi í heild og almenning. Slíkt áfall hefði keðjuverkandi áhrif, m.a. á gengi krónunnar, eignaverð, vexti og verðbólgu,“ segir í greiningunni.