Alþingi samþykkti í gærkvöldi að hækka framlög til mannúðaraðstoðar í Sýrlandi á þessu ári um 50 milljónir króna. Þetta er til viðbótar 23 milljónum sem Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra hefur ákveðið að veita aukalega til neyðaraðstoðar í landinu. Þá hefur ráðherra ákveðið að ráðstafa 52 milljónum þegar í byrjun næsta árs til mannúðaraðstoðar í Sýrlandi.

Samkvæmt fréttatilkynningu frá Utanríkisráðuneytinu er mikil þörf fyrir þessa aðstoð. Um hálf milljón manna hefur látið lífið vegna stríðsins í Sýrlandi og um 11 milljónir manna hafa flúið heimili sín. Talið er að um 13,5 milljónir Sýrlendinga þurfi á mannúðaraðstoð að halda.

Framlög Íslands fara að stærstum hluta til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, Barnahjálpar SÞ í Sýrlandi, UNICEF, og til Sýrlandssjóðs Samræmingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum, OCHA.

Einna alvarlegast er ástandið í Austur-Aleppo. Í fimm mánuði mistókust tilraunir til að koma hjálpargögnum til íbúanna, sem hafa búið við skort á mat, heilbrigðisþjónustu, hreinlæti og öðrum nauðsynjum, auk þess sem mjög kalt er á svæðinu á þessum árstíma. Sameinuðu þjóðirnar áætluðu í vikunni að 39 þúsund borgarar hafi flúið frá Austur-Aleppó.

Framlög Íslands renna til aðstoðar við þetta fólk og aðra Sýrlendinga sem á aðstoð þurfa að halda, innan og utan heimalandsins.