Norður Kórea segist vera að ganga í gegnum sitt versta þurrkatímabil í heila öld og er óttast að matvælaskortur í landinu gæti aukist enn frekar.

Ríkisfréttaveitan KCNA greindi frá því að hrísgrjónarækt hefði farið illa úr þurrkunum og að meira en 30 prósent af hrísgrjónaökrum hefðu þornað upp. Ljóst er að íbúar Norður Kóreu, sem flestir búa nú þegar við sára fátækt, gætu farið afar illa út úr þessum þurrkum.

Talið er að hundruðir þúsunda Norður Kóreubúa hafi látið lífið í hræðilegri hungursneyð á tíunda áratug síðustu aldar. Ekki er líklegt að þessir þurrkar muni kosta jafn mörg mannslíf vegna nýlegra endurskipulagninga á landbúnaði.

Matvælastofnun Sameinuðu Þjóðanna segir að Norður Kórea lendi reglulega í alvarlegum matvælaskorti og að um það bil þriðjungur barna þar í landi séu vannærð. Líklega muni þessi þurrkur valda enn meiri skaða í ljósi þess hversu lokað hagkerfi Norður Kóreu er.

Blendnar tilfinningar hjá nágrönnunum

Steve Evans, blaðamaður hjá BBC í Suður-Kóreu, segir að afar óvenjulegt sé að nágrannarnir í norðri tali opinberlega um matvælaskort sinn. Það lýsi alvarleika málsins að ríkisfjölmiðlar greini frá þurrkunum. Má segja að Norður Kórea sé að gefa í skyn að óskað sé eftir hjálp frá alþjóðasamfélaginu.

Hann bætir því við að tilfinningar Suður Kóreubúa séu blendnar þegar kemur að því að hjálpa nágrönnum sínum. Flestir vilja hjálpa vannærðu fólkinu hinu megin við landamærin en einhverjir senda spurningamerki um að styðja við þjóð sem þróar kjarnorkuvopn sem miðað er að þeim sem hjálpa til.

Þó ákvað Norður Kórea á dögunum að leysa tvo suður kóreska fanga úr haldi og leyfa þeim að snúa aftur til síns heima. Gæti verið að markmiðið sé að öðlast meiri samúð frá nágrönnum sínum.

Aðstoð til Norður Kóreu dregist verulega saman

Undanfarin tíu ár hefur dregið verulega úr vilja annarra þjóða til að hjálpa Norður Kóreu eftir að stjórnvöld þar fóru að þróa kjarnorkuvopn. Neyðaraðstoð frá löndum Sameinuðu Þjóðanna hefur dregist saman úr 300 milljónum dollara niður í 50 milljónir dollara á rúmum tíu árum.

Líkt og áður kom fram lenti Norður Kórea í skelfilegri hungursneyð á tíunda áratugnum og síðan þá hafa bændur fengið meira frelsi til að selja hrísgrjón sín á markaði. Hefur það skilað sér í meiri framleiðslu. Sé hins vegar ekkert vatn til staðar, þá er ekki hægt að rækta hrísgrjón.

KCNA greindi frá því að búið væri að sá fyrir hrísgrjónum á 441.560 hektörum en að allavega 136.200 hektarar væru að ofþorna. Í sumum héruðum hefur allt að 80 prósent að ökrunum ofþornað.

Sendiherra Danmerkur í Norður og Suður Kóreu, Thomas Lehman, greindi Reuters frá því að hann hefði heimsótt verstu þurrkasvæðin í maí síðastliðnum.

„Vatnsskorturinn hefur valdið gríðarlegum skaða. Það er virkilega erfitt að rækta hrísgrjón ef ekki er nægilega mikið vatn til staðar,“ sagði Lehman.

Þjóðartekjur á mann í Norður Kóreu eru á milli 1.000 og 2.000 dollara á ári á meðan þær eru yfir 20.000 dollarar í Suður Kóreu.