Portúgal er þriðja evraríkið sem er veitt aðstoð vegna fjárhagserfiðleika, eftir að gengið var frá samningum milli Portúgals og ESB og AGS í gærkvöldi. José Sócrates, sem fer með völd forsætisráðherra fram að kosningum, kynnti samninginn í sjónvarpsávarpi í gær. Hann sagði samkomulagið krefjandi fyrir Portúgal, en skilyrði væru þó ekki jafn ströng og þau voru fyrir Írland og Grikkland.

Lánið hljóðar upp á 78 milljarða evra á næstu þremur árum. Vextir voru ekki tilgreindir í gær. Kom fram að fjármunirnir verði meðal annars notaðir í að styrkja fjármálakerfi landsins.