Atvinnumálaráðherra Noregs, Hanne Bjurstrøm, kom í veg fyrir verkbann olíuframleiðenda í Noregi í nótt með setningu neyðarlaga. Vinnuveitendur í deilunni hugðust setja á verkbann eftir 16 daga langt verkfall starfsmanna en það myndi hafa í för með sér að olíuframleiðsla í Noregi hefði stöðvast. Þetta kemur fram í frétt á vef e24.no. Þetta þýðir að bæði verkbannið og verkfallið hafa nú verið stöðvuð.

Bjurstrøm sagði í gær að vinnuveitendur hefðu tekið óhemju óábyrga ákvörðun með því að setja á verkbannið. Hún sagði helstu ástæðuna fyrir því að hún hefði tekið þessa ákvörðun um neyðarlög vera þá að passa þyrfti upp á traust Noregs sem seljanda olíu. Leiðtogi verkalýðsfélagsins Industri Energi sagði á sama tíma að þeim þætti eins og búið væri að svíkja þá í málinu.