LItlar vonir standa nú til þess að evruríkjunum takist að stækka neyðarsjóð sinn í 1.000 milljarða evra eins og lagt var út með á fundi fjármálaráðherra evrusvæðisins sem haldinn var í gær í Brussel. BBC hefur eftir Jean-Claude Juncker, fjármálaráðherra Lúxemborgar og formanni evruhópsins, að þótt viljinn sé enn fyrir hendi hafi aðstæður breyst og sennilega verði sjóðurinn öllu minni en 1 billjón evra.

Fundurinn varð þó ekki alveg árangurslaus, a.m.k. frá bæjardyrum Grikkja séð, því samþykkt var að greiða Grikkjum næsta skammt neyðarlánsins í desember. Þá var tekin um það ákvörðun að ábyrgjast um 20-30% þeirra ríkisskuldabréfa sem gefin verða út í löndum sem eiga í vanda.