Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups, sem er í ítarlegu viðtali í bókinni 300 stærstu sem kom út á dögunum, segir að íslenskt nýsköpunarumhverfi hafi breyst mjög mikið á þeim rúmu sex árum sem hún hefur starfað innan geirans.

„Mér finnast mjög margir spennandi hlutir í gangi í nýsköpunarumhverfinu. Fyrir áratug síðan var varla hægt að tala um að það væri nýsköpunarsamfélag á Íslandi en í dag erum við með mjög öflugt stuðningsumhverfi, sérstaklega fyrir einstaklinga og fyrirtæki á fyrstu stigunum. Það kom mikið fjármagn inn í nýsköpunarsenuna árið 2015, eða u.þ.b. 11 til 12 milljarðar króna, með tilkomu nýrra vísisjóða. Í dag eru um fimm íslenskir sjóðir sem eru að fjárfesta í sprotum. Vísisjóðirnir eru að mestu fjármagnaðir af lífeyrissjóðum, sem nú hafa fengið auknar fjárfestingarheimildir til að fjárfesta í vísisjóðum. Því vonumst við til þess að enn meira fjármagn til fjárfestinga í nýsköpun komist í umferð," segir Salóme og bætir við að stofnun Kríu, sprota og nýsköpunarsjóðs í eigu ríkisins, sé einnig til þess fallinn að auka hvata fyrir virkt fjármögnunarumhverfi sprota. Miklar jákvæðar hræringar séu nú í gangi í sjóðaumhverfinu og framlag í Tækniþróunarsjóð stórlega aukist sem muni sömuleiðis bæta umhverfi nýsköpunarfyrirtækja.

Vágesturinn COVID-19 hefur leikið íslenskt efnahagslíf grátt og stendur þjóðin nú frammi fyrir því að reyna að vinna sig upp úr kreppunni sem faraldurinn hefur leitt af sér. Oft á tíðum hefur verið talað um að nýsköpun blómstri í kreppum, þar sem neyðin kenni jú naktri konu að spinna. Salóme kveðst geta tekið heils hugar undir það og bendir á að mikil gróska hafi farið að myndast í nýsköpunarumhverfinu á Íslandi á eftirhrunsárunum.

„Ég tel sennilegt að það gerist það sama núna og gerðist í kjölfar efnahagshrunsins. Það er mikið af fólki sem er að missa vinnuna að hluta eða í heild og ekki ósennilegt að einhverjir úr þeim hópi séu með hugmynd í kollinum um nýtt fyrirtæki. Í dag er stuðningsumhverfið líka betra en það var í hruninu og því finnst mér líklegt að fólk muni vera enn ófeimnara við að kýla á hugmyndir sínar. Ég á von á því að við sjáum áhrifin betur eftir áramótin og þegar uppsagnarfrestir renna víða út. Þá skiptir sköpum að til staðar séu skýrir hvatar fyrir fólk til að vinna að nýsköpunarverkefnum í stað þess að sitja með hendur í skauti á atvinnuleysisbótum. Þannig geta myndast ný verðmætaskapandi tækifæri til framtíðar."

Nánar er fjallað um málið í bókinni 300 stærstu sem kom út nýlega. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér .