Erlendir ferðamenn sem sóttu Airwaves hátíðina heim á síðasta ári eyddu samtals um 1.620 milljónum króna. Þetta kemur fram í nýrri könnun á vegum ÚTÓN sem birt var í dag. Helstu niðurstöður hennar eru að ferða- gisti- og miðakostnaður hefur lækkað frá árinu 2013, að erlendum gestum hefur í heildina fjölgað og að gistinætur þeirra eru fleiri. Heildarneysla þeirra ferðamanna sem hingað komu vegna hátíðarinnar jókst um 420 milljónir á milli ára samkvæmt könnuninni.

Um 9.100 manns sóttu hátíðina í fyrra en af þeim voru um 5.050 gestir erlendir og 4.050 íslenskir. 402 gestir hátíðarinnar svöruðu könnun ÚTÓN 10,4% svarenda komu frá Bandaríkjunum en alls voru svarendur frá 51 landi.

22% gesta borguðu ekki fyrir miðann

Í niðurstöðum könnunarinnar segir að meðalútgjöld sem hátíðargestir vörðu í flug, gistingu og aðgöngumiða á hátíðina var 118.514 krónur og var meðallengd dvalar þeirra 7,4 dagar. Á hátíðinni voru 7.100 gestir sem borguðu sig inn, en aðrir voru ýmist listamenn eða aðilar sem fengu frímiða, en þetta eru þeir sem ýmist starfa í tónlistarbransanum (plötuútgáfa, bókarar, umboðsmenn o.s.frv.) og aðrir aðilar. Það þýðir að um 22% hátíðargesta greiddu ekki fullt verð fyrir miðann sinn sem kostaði 18.500 krónur.

Niðurstöðurnar í heild sinni.

Leiðrétting : Í fyrri útgáfu þessarar fréttar stóð að tæplega 45% svarenda könnunarinnar hafi verið íslendingar. Rétt er að könnunin náði aðeins til erlendra gesta hátíðarinnar. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.