Neysla jókst meira í septembermánuði í Bandaríkjunum en búist var við. Juku heimili landsins við bílakaup sín og verðbólgan virðist jafnt og þétt vera að aukast. Gæti það aukið væntingar um stýrivaxtahækkun Seðlabanka landsins í desembermánuði.

Neyslan jókst í september eftir samdrátt í ágúst

Viðskiptaráðuneyti landsins tilkynnti að neyslan hefði aukist um 0,5% í mánuðinum, eftir að hafa dregist saman um 0,1% í ágúst. Neyslan stendur undir um 70% af efnahagsumsvifum í landinu.

Hagfræðingar höfðu vænst þess að aukningin yrði 0,4%, en þegar tekið er tillit til verðbólgu er aukningin 0,3% en þá mælist samdráttur hennar 0,2% í ágústmánuði. Ef horft er á neysluna á ársgrundvelli mælist aukning hennar vera 2,1%.

Iðnframleiðsla í miðvesturríkjunum dróst saman

Í annarri skýrslu sem birtist á sama tíma sést að iðnframleiðsla í  miðvesturríkjum Bandaríkjanna hefur ekki verið minni í fimm mánuði í október, vegna lítillar eftirspurnar.

Aukningin í neyslunni ásamt aukningu í útflutningi á soyjabaunum og aukinni fjárfestingu í birgðum hjálpaði til við að auka hagvöxt upp í 2,9% á ársfjórðungnum.

„Í það heila er verðbólgan að færast í aukana í kjölfar þess að orkuverð og bandaríski dalurinn hafa náð jfnvægi síðan í vor. Auknar launahækkanir vegna lítils atvinnuleysis hefur einnig hjálpað til við að ýta undir verðbólgu,“ segir Gus Faucher, aðalhagfræðingur hjá PNC Financial í Pittsburg.