Mikil aukning hefur orðið á gjaldeyristekjum af erlendum ferðamönnum samkvæmt því sem segir í tilkynningu frá Samtökum ferðaþjónustunnar. Þar segir að 25% aukning hafi orðið í neyslu ferðamanna hér á landi fyrstu 9 mánuði ársins

“Fyrstu 9 mánuði ársins 2007 hafa gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum aukist úr 38.9 milljörðum í 44.8 milljarða eða um 15%.  Munar mest um neyslu innanlands en hún hefur aukist á þessu tímabili um 25% á meðan fargjaldatekjur hafa dregist saman um 3%,” segir í tilkynningunni.

Fjölgun erlendra ferðamanna í gegnum Leifsstöð fyrstu 9 mánuði ársins er 16.5% og er ágæt fjölgun frá flestum mörkuðum en mest frá Bretlandi og Skandínavíu.