Metfjölgun erlendra ferðamanna varð á fyrstu fimm mánuðum ársins eða 31,4% aukning frá fyrra ári. Þessi aukning kemur einnig fram í aukinni erlendri greiðslukortaveltu, sem jókst um 28% fyrstu fimm mánuði ársins; var næstum 34 milljarðar kr.  á þessu ári en 26 milljarðar á sama tímabili í fyrra. Þetta sýna tölur frá Rannsóknarsetri verslunarinnar á Bifröst.

Það sem vekur jafnframt athygli er að eyðla hvers ferðamanns eykst. Þannig hækkaði til dæmis neysla í maí meira en verið hefur undanfarna mánuði.  Kortavelta á hvern einstakling var 134 þúsund krónur í síðasta mánuði og hækkaði um 17% frá sama mánuði í fyrra.  Ekki liggur fyrir hvort skýringin er hækkun á verði til erlendra ferðamanna, veltan skili sér betur vegna minni svartrar atvinnustarfsemi í ferðaþjónustu eða einfaldlega að ferðamenn kaupi meira en áður.

Mestu eyddu Svisslendingar í maí, 303 þús. kr. á hvern ferðamann. Kortavelta á hvern Rússa að meðaltali var 214 þús. kr. og Frakkar voru í þriðja sæti með 150 þús. kr. á hvern ferðamann.