Samdráttur í kortaveltu einstaklinga í októbermánuði var sá mesti að raungildi frá því í apríl á þessu ári, þegar fyrsta Covid-19 bylgjan stóð sem hæst. Innlend kortavelta í október dróst saman um tæplega tólf prósent samanborið við sama mánuð fyrra árs og nam 78 milljörðum króna. Kortaveltu erlendis dróst saman um helming, að teknu tilliti til gengisbreytinga, frá þessu er greint í greiningu Íslandsbanka.

Í greiningu bankans er farið yfir framþróun veirufaraldursins og kortaveltu Íslendinga. Um leið og smitum var farið að fækka eftir fyrstu bylgju faraldursins og sóttvarnaraðgerðir voru mildar jókst kortavelta talsvert. Strax í annarri bylgju faraldursins hérlendis dróst kortavelta saman og síðan enn fremur í þriðju bylgju.

Í greiningunni kemur enn fremur fram að á fyrri helmingi ársins var nær 40% samdráttur í kortaveltu Íslendinga erlendis að raungildi en innanlands stóð hún að jafnaði í stað. Einkaneysla skrapp saman um fjögur prósent á sama tímabili. Á undanförnum fjórum mánuðum hefur kortavelta erlendis dregist saman um 53% frá fyrra ári en velta innanlands aukist um tæplega fimm prósent.