*

föstudagur, 30. október 2020
Innlent 14. ágúst 2020 12:13

Neysla Íslendinga innanlands eykst

Alls nam velta tengd verslun og þjónustu innanlands 81,3 milljörðum króna.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Kortavelta Íslendinga jókst um 12% milli ára í júlí miðað við fast verðlag. Erlendis dróst kortavelta saman um helming. Frá þessu er greint í Hagsjá Landsbankans

Seðlabanki Íslands birti í gær gögn um veltu innlendra greiðslukorta í júlí. Alls nam velta tengd verslun og þjónustu innanlands 81,3 milljörðum króna og jókst um 12% milli ára miðað við fast verðlag. Í júní mældist aukningin 17%. Kortavelta Íslendinga innanlands hefur því tekið vel við sér á sumarmánuðunum sem vegur að einhverju leyti upp á móti þeim samdrætti sem varð í apríl og maí, þegar samkomubann stóð sem hæst.

Greiðslukortavelta Íslendinga erlendis nam 9,4 milljörðum króna í júlí, sem er samdráttur upp á rúm 50% milli ára. Þetta er töluvert minni samdráttur en sem nemur fækkun utanlandsferða Íslendinga í júlímánuði, en þeim fækkaði um 78% milli ára. Á tímabilinu apríl til og með júlí fækkaði utanlandsferðum Íslendinga um 92% milli ára.

Samanlagt nemur greiðslukortavelta Íslendinga í júlí rúmum 90 milljörðum króna sem er 1,3% minni velta en í júlí í fyrra miðað við fast verðlag og fast gengi. Neysla virðist því dragast örlítið saman að raungildi á sama tíma og hún er í auknum mæli innlend.

Stikkorð: Landsbankinn Hagsjá