*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 18. júní 2020 10:10

Neysla Íslendinga tekur við sér

Velta innlendra greiðslukorta í maí jókst um 36% milli mánaða, það jafngildir 7% minni veltu milli ára.

Ritstjórn
Neysla Íslendinga er farin að aukast á ný.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Eins og við var búist dróst kortavelta í maí saman að raungildi milli ára en hún jókst á milli mánaða. Þrátt fyrir að kortavelta sé að ná sér nokkuð á strik er ljóst að einkaneysla verður fyrir miklum skelli á árinu. Frá þessu greinir Íslandsbanki en bankinn gerir ráð fyrir 5,5% samdrætti í einkaneyslu á þessu ári.

Samkvæmt nýlegum tölum Seðlabankans nam velta innlendra greiðslukorta alls tæplega 86 milljörðum króna í maí síðastliðnum. Það jafngildir 7% minni veltu en á sama tíma ári áður en 36% aukningu í veltu frá aprílmánuði. Velta debetkorta jókst um 0,7% milli ára en velta kreditkorta skrapp saman um ríflega 15% á sama tíma.

Ef tekið er tillit til verðlags- og gengisbreytinga skrapp velta greiðslukorta heimila saman um 9% í maímánuði frá sama mánuði árið 2019. Það er töluvert minni samdráttur milli ára en var í mars og apríl þegar samdrátturinn var að meðaltali ríflega 20% sem svipast til kreppuársins mikla 2009.

Samkvæmt Rannsóknarsetri verslunarinnar jókst innlend kortavelta sem tengist verslun og þjónustu um 13,6% í maí samanborið við sama mánuð í fyrra og um 38% frá fyrri mánuði.

Ýmis þjónusta var opnuð á nýjan leik og kemur því ekki á óvart að kortavelta fyrir þá þjónustu hafi aukist mikið en snyrti- og heilsutengdrar þjónustu jókst um 86% á milli ára og lækna- og tannlæknaþjónustu um 64%.

Stikkorð: einkaneysla Kortavelta