Dágóður vöxtur virðist hafa verið í einkaneyslu á síðasta ársfjórðungi í fyrra ef mið er tekið af kortaveltu. Raunvöxtur kortaveltu í desember nam 7,5% á milli ára. Vöxturinn var slíkur að hann breytir heildarmyndinni fyrir allt síðasta ár. Greining Íslandsbanka segir mikla veltu í jólamánuðinum árvissa en samt sé engin einhlít skýring á þessum fjörkippi í síðasta mánuði miðað við fyrra ár. Í Morgunkorni deildarinnar segir að hugsanlegt sé að skuldaaðgerðir ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru í nóvember hafi hleypt auknu lífi í innkaup landsmanna fyrir jólin.

Greining Íslandsbanka bendir á að nokkur aðdragandi hafi verið að því að kortavelta jókst á fjórða og síðasta ársfjórðungi nýliðins árs eftir bakslag í einkaneyslunni síðasta vetur. Þannig mældist 0,9% samdráttur að raungildi í kortaveltu á fyrsta ársfjórðungi ársins 2013, 1,2% vöxtur á öðrum fjórðungi, 2,3% vöxtur á þriðja ársfjórðungi og 4,2% vöxtur á fjórða ársfjórðungi. Á heildina litið hafi kortavelta því aukist um 1,8% að raunvirði í fyrra. Samkvæmt þessu breyti neyslukippurinn um jólin því heildarmyndinni en styrkja jafnframt Seðlabankann væntanlega í þeirri skoðun að hagkerfið sé nú óðum að taka við sér.

Í nóvembers spáði bankinn 1,9% vexti einkaneyslu á árinu 2013. Kortatölurnar eru í samræmi við þá spá, að sögn Greiningar Íslandsbanka.