Kortavelta mældist meiri í júlí sl. heldur en í hefðbundnum júlímánuði fyrir Covid faraldurinn og einnig meiri en í síðustu jólavertíð. Þá hafa ferðalög til útlanda aukið kortaveltu erlendis og hægir nú á aukningu innlána í bankakerfinu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans .

„Seðlabanki Íslands birti fyrir helgi gögn um veltu innlendra greiðslukorta í júlí. 1 Samanlagt jókst kortavelta um 8% milli ára miðað við fast gengi og fast verðlag. Alls nam velta tengd verslun og þjónustu innanlands 85,6 mö.kr. og jókst um tæp 2% milli ára á föstu verðlagi. Kortavelta Íslendinga erlendis nam 15 mö.kr. og jókst um 71% milli ára miðað við fast gengi. Þetta er mesta kortavelta erlendis frá því í janúar 2020 og mælist aðeins 18% minni að raunvirði en í júlí 2019, áður en faraldurinn skall á.

Síðustu tvo mánuði hefur framlag kortaveltu erlendis vegið meira til aukningar heildarkortaveltunnar en sést hefur allt frá upphafi faraldursins og er líklegt að sú þróun haldi áfram næstu mánuði eftir því sem ferðalög aukast," segir í Hagsjánni.

Þá bendir hagfræðideildin á að júlí sé alla jafna neyslumikill mánuður þar sem landsmenn séu margir hverjir í fríi og vilji því gera vel við sig. Neyslan nú hafi verið talsvert meiri en áður hefur sést og mælist til að mynda meiri en í júlímánuði fyrir tveimur árum, fyrir faraldur, og einnig meiri en í desember síðastliðnum.

„Aukin ferðalög til útlanda skýra hluta þróunarinnar, en 31.000 Íslendingar fóru til útlanda í júlí, sem er 133% fleiri en í fyrra. Fjöldinn er þó helmingi minni en fyrir tveimur árum, þegar yfir 60.000 Íslendingar lögðu land undir fót," segir jafnframt í Hagsjánni.