*

miðvikudagur, 3. mars 2021
Fólk 18. október 2020 18:57

Neysluhyggja og andi í jafnvægi

Arnar Halldórsson, nýjum aðstoðarhönnunarstjóra Brandenburg, fannst norsku sunnudagslokanirnar í fyrstu pirrandi.

Höskuldur Marselíusarson
Nýr aðstoðarhönnunarstjóri auglýsingastofunnar Brandenburg ætlar að reyna að halda jafnvægi milli neysluhyggjunnar og að rækta andann á norska vísu en þar fannst honum fyrst mjög pirrandi að allt væri lokað á sunnudögum.
Aðsend mynd

„Ég hef verið að fylgjast með þeim á Brandenburg erlendis frá og sjá hvað þeir hafa verið að gera góða hluti. Það hefur verið aðdáunarvert hvað þeir hafa framkvæmt flottar hugmyndir, þótt þetta sé á aðeins öðrum skala en ég hef vanist úti. Þá er kjarninn sjálfur sá sami, þar sem stórar hugmyndir skila árangri," segir Arnar Halldórsson, nýr aðstoðarhönnunarstjóri Brandenburg. Hann er nýfluttur heim eftir nærri áratug við störf á ýmsum auglýsingastofum á Norðurlöndunum.

„Ég og kona mín, Agnes Sif Agnarsdóttir, og börnin okkar þrjú, sem eru tíu, átta og fjögurra ára, ákváðum að koma aftur hingað heim til Íslands til að prófa að vera fjölskylda á Íslandi, og þá kom eiginlega engin önnur stofa til greina en Brandenburg til að vinna á. Það er mjög upplífgandi að koma heim, Íslendingar eru svo opnir og þetta reddast hugarfar og svona liðsheildarhugsun er ríkjandi alls staðar, það eru allir að hjálpa öllum."

Arnar er að hluta til alinn upp í Noregi en kom til Íslands á ný eftir tíu ár úti, þá 14 ára gamall. „Tónlistin hefur alltaf verið hluti af mér, en ég var í hljómsveit í gamla daga sem hét The Boys sem var svona barnastjörnugaman á sínum tíma. Ég átti smá erfitt með íslenskuna framan af en læri hana hægt og rólega, og fer í margmiðlunarhönnun í Borgarholtsskóla til að vera í meira listnámi og þar opnuðust augun fyrir möguleikunum," segir Arnar.

„Eftir skiptinám í Bandaríkjunum fer ég í Listaháskólann í myndlist, en mesti áhuginn lá alltaf í þeim möguleikum sem voru í því að nýta tækni og listina saman sem beindi mér í mastersnám í rafrænni list í Skotlandi. Þegar ég kem svo heim aftur sem fátækur námsmaður byrjaði ég hjá Saga Film í því að gera auglýsingar á hinum endanum, þannig að ég hef fengist við báða pólana í því."

Eftir það fóru Arnar og Agnes til Noregs á ný, þar sem hann starfaði fyrir auglýsingastofurnar NORD DDB, The Oslo Company og SMFB, sem unnu fyrir mörg alþjóðleg vörumerki. „Okkur fannst mjög pirrandi fyrst að í Noregi er allt lokað á sunnudögum en síðan fannst okkur þetta æðislegt því allt er róað niður og fjölskyldan er bara saman og finnur sig. Nýttum við oft tækifærið til að fara með nesti út í skóg," segir Arnar.

„Okkur langar að halda í þessa venju hér á landi, enda nauðsynlegt að halda í jafnvægið milli neysluhyggjunnar og að halda andanum gangandi. Við lifum í yndislegu samfélagi, höfum aldrei haft það jafngott og getum keypt hvað sem okkur langar í hvenær sem er, en maður þarf að vera í jafnvægi við náttúruna og hafa lappirnar á jörðinni."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.