Nú þegar heimsmeistarakeppnin í fótbolta er hafin slá Englendingar ekkert af í að lýsa stuðningi sínum við landslið sitt og er England því nú þakið enska fánanum og varningi tengdum liðinu, segir í frétt The Guardian á laugardag.

Verslunarkeðjan Sainsbury hefur nú selt 400 þúsund bílamerkingar landsliðsins, 100 þúsund fána landsliðsins, sex þúsund rauðar og hvítar hárkollur á tíu pund stykkið (um þrettán hundruð krónur) og verulegan fjölda hlæjandi leikfangabolta á þrjú pund stykkið. Einnig selst nú grimmt uppblásinn varningur merkur liðinu, uppblásnar hendur, húsgögn og raunar allt sem blása má upp.

Fyrir leikinn við Paraguy á laugardag var gert ráð fyrir tíu prósent aukningu í bjórsölu og því betur sem liðinu gengur því meiri aukningar á sölu má vænta. Talsmaður Sainbury sagði að ef liðið kæmist í úrslit mætti vænta 200% aukningar á hvers konar veisluvarningi.

Neysluæði virðist hafa runnið á Englendinga í kringum heimsmeistarakeppnina. Spáð er að efnahagurinn aukist um 1,25 billjónir punda í heildina, samkvæmt bresku hagfræði- og viðskiptarannsóknarstofnuninni (Centre for Economics and Business Research). En velgegni liðsins gæti þó einnig haft neikvæð áhrif, auknar fjarvistir fólks frá vinnu og niðursveiflu efnahags.

En horfurnar eru enn góðar, veðbankar horfa nú til dæmis fram á gríðarlega uppsveiflu og spá talsmenn veðbanka að heildarvelta verði að minnsta kosti billjón pund. Það þýðir að á meðan HM stendur verða 1,25 milljónir punda (170 milljónir króna) lagðar undir á hverjum klukkutíma. Sem dæmi um aukningu hjá veðbönkum nefnir talsmaður veðbankans William Hill að einstaklingur hafi veðjað 50 þúsund pundum (6,8 milljónum króna) á að England myndi sigra Paraguy 6-1.

Sala á sjónvörpum hefur einnig stóraukist og segir talsmaður Curry's raftækjaverslananna að flatskjásjónvarp seljist nú á 15 sekúndna fresti og að ef liðið kemst áfram í keppninni gætu flatskjáir farið að seljast á 10 sekúndna fresti.

Lögreglan þar í landi vildi lítið tjá sig um aukið annríki þar sem slíkar spár væru engum til gagns, en sögðu þó að aukin löggæsla yrði við opinbera staði sem sýndu frá keppninni.

Talsmaður samtaka sem veitir símahjálp til þeirra sem eru í sjálfsvígshugleiðingum, sagði að ekki yrði aukið við sjálfboðaliða í vinnu, en að vissulega hefðu margir þættir áhrif á líðan fólks svo sem: hryðjuverkaárásirnar 11. september, endalok hljómsveitarinnar Take That og svo gengi enska landsliðsins á heimsmeistaramótinu.