Neysluútgjöld heimilanna hafa aukist um 9,3% frá tímabilinu 2001 til 2003. Þetta kemur fram í rannsókn á útgjöldum heimilanna á vegum Hagstofu Íslands.

Á sama tíma hækkaði verðlag að meðaltali um 3,2% samkvæmt vísitölu neysluverðs og því má álykta að raunveruleg neysluaukning hafi verið í um 6,1% milli tímabila, segir greiningardeild Kaupþings banka.

Ráðstöfunartekjur meðalheimilis á tímabilinu 2002 til 2004 voru um 340 þúsund krónur á mánuði eða tæpar 132 þúsund krónur á mann samkvæmt könnun Hagstofunnar.

Að meðaltali hafa ráðstöfunartekjur heimilla því hækkað um 3,2% frá tímabilinu 2001 til 2003, segir greiningardeild Kaupþings banka.

Talsverð hækkun varð á útgjaldahlutfalli ferða og flutninga sem fór úr 12,9% í 15,7% milli tímabila.

Rekja má þá aukningu að mestu til kaupa á ökutækjum. Um 23,4% heimila eiga tvo bíla eða fleiri samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar en það hlutfall var 20,8% árið 2003.

Hæstar tekjur á mann eru meðal einhleypinga en lægstar á heimilum einstæðra foreldra og er munurinn um 76% að meðaltali.

Að meðaltali eru neysluútgjöld íslenskra heimila sem hlutföll af tekjum um 94% en á tímabilinu 2001 til 2003 var útgjaldahlutfallið 88,5% að meðaltali.

Ef litið er á útgjöld heimila hjóna/sambýlisfólks með börn var hlutfall neysluútgjalda af ráðstöfunartekjum 90,7% á tímabilinu 2002 til 2004 samanborið við 85,7% tímabilið 2001 til 2003.

Líklega má rekja þessa þróun til þess að aðgengi að lánsfé hefur batnað til muna á síðustu árum þá sérstaklega með innkomu bankanna á húsnæðismarkaðinn, segir greiningardeild Kaupþings banka.

Hér þarf að hafa í huga að hér er einungis um að ræða útgjöld heimila til neyslu og því eru útgjöld heimila líklega meiri.