Vísitala neysluverðs í júlí 2005 er 242,7 stig (maí 1988=100) og hefur hækkað um 0,12% frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 227,9 stig, lækkaði um 0,13% frá því í júní.

Vísitöluáhrif af sumarútsölum eru mæld -0,51% í þessum nýjustu útreikningum Hagstofu Íslands. Í útsölunum hefur verð á fötum og skóm lækkað um 9,3% frá fyrra mánuði.

Eigið húsnæði í vísitölu neysluverðs hækkaði um 1,4% (0,22%), þar af voru áhrif af hækkun markaðsverðs á húsnæði 0,30% en á móti vógu áhrif af lækkun meðalvaxta, -0,08%. Verð á dagvöru hækkaði um 0,8% (0,13%). Verð á bensíni hækkaði um 3,8% (0,14%).

Þann 1. júlí 2005 var þungaskattur af bílum lagður niður en í stað hans tekið upp olíugjald sem reiknast inn í verð díselolíu. Olían hækkar í verði um 105,7% sem leiðir til 0,61% vísitöluhækkunar. Þungaskatturinn var í grunni vísitölunnar, en við kerfisbreytinguna fellur hann niður, sem lækkar vísitölu neysluverðs um 0,48%. Heildaráhrifin af hækkun á verði olíunnar og kerfisbreytingunni leiða því til 0,13% vísitöluhækkunar.

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 3,5% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 0,1%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 0,3% sem jafngildir 1,2% verðbólgu á ári (0,7% verðhjöðnun fyrir vísitöluna án húsnæðis).

Vísitala neysluverðs í júlí 2005, sem er 242,7 stig, gildir til verðtryggingar í ágúst 2005. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 4.792 stig fyrir ágúst 2005.