Töluverðir gallar eru á bæði gagnaöflun og úrvinnslu neysluviðmiða félagsmálaráðuneytisins, sem meðal annars liggja til grundvallar greiðslumati fyrir fasteignakaup. Viðmiðin hafa kerfisbundið ofmetið neysluútgjöld, sem gæti þýtt að greiðslumatsþröskuldurinn hafi verið of hár.

Neysluviðmiðin voru fyrst reiknuð á vegum velferðarráðuneytisins árið 2011. Fram kemur í skýrslu starfshóps sem hannaði viðmiðin að Hagstofan framkvæmi nú þegar „umfangsmiklar rannsóknir“ á útgjöldum heimilanna, og því sé stuðst við gögn úr þeim, þar sem mikill sparnaður sé í því fólginn.

Á móti kemur hins vegar að markmið útgjaldakönnunar Hagstofunnar er einungis að meta vægi hinna ýmsu útgjaldaflokka af heildarútgjöldum heimila, ekki að rannsaka útgjöld þeirra í krónutölum sérstaklega. Rannsóknin fer þannig fram að þátttakendur eru beðnir að skrá niður öll sín útgjöld yfir tiltekið tímabil, en slíkar rannsóknir eru ýmsum vandkvæðum bundnar. Það sem hrjáir þær einna helst er lág svörun og lág og óregluleg tíðni tiltekinna útgjalda. Rannsakendur þurfa því að bæta það upp með öðrum heimildum þar sem við á.

Helmingur gagnasafnsins fjarlægður
Þrátt fyrir þetta var engin sérstök krafa gerð um marktækni eða annars konar gæði gagnanna til notkunar við útreikning neysluviðmiða. Hins vegar var ákveðið að við útreikning neysluviðmiðanna skyldu efsti og neðsti útgjaldafjórðungur fjarlægðir úr gögnunum „til að tryggja að gögnin innihaldi ekki óvenjulegar mælingar“.

Sérfræðingur hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, sem unnið hefur viðmiðin fyrir ráðuneytið síðastliðin tvö ár, segir þessa aðferðafræði hafa kerfisbundið bjagað útkomuna upp á við. Stofnunin taldi ekki forsvaranlegt að reikna viðmiðin með þessum hætti, og látið var af því í samráði við ráðuneytið þegar hún tók við vinnslunni í fyrra. Viðmiðið lækkaði í kjölfarið um tæp 15% milli ára.

Stofnunin er þó áfram bundin af þeim ramma sem skýrslan frá 2011 setur henni, en hún hefur komið ábendingum um úrvinnsluna til leiðar við ráðuneytið, auk þess að vinna tölurnar í samstarfi við Hagstofuna.

Árið 2016 voru lánveitendur skyldaðir með lögum til að byggja á grunnviðmiðinu við framkvæmd greiðslumats til fasteignakaupa, en það höfðu þeir að vísu þegar gert um nokkurt skeið.

Lánveitendur nota að vísu sínar eigin aðferðir til að reikna endanlegt greiðslumat og leggja í dag álag á grunnviðmið ráðuneytisins, sem er mismunandi milli lánveitenda. Allir leggja þeir þó grunnviðmiðið til grundvallar.

Huglægt mat sérfræðinga í stað fyrirliggjandi gagna
Grunnviðmiðið er reiknað að svo til öllu leyti sem fast hlutfall af því dæmigerða, en hlutfallið er breytilegt milli útgjaldaflokka og ákvarðað að miklu leyti eftir huglægu mati skýrsluhöfunda. Þannig eru allar þær upplýsingar sem í gögnunum felast um útgjaldadreifinguna virtar að vettugi.

Sem dæmi er útgjöldum til menntunar haldið óbreyttum frá miðgildinu í grunnviðmiðinu með þeim rökum að „allir eigi jafnan rétt til menntunar“ og mikilvægt sé að skapa fólki sem býr til lengri tíma við grunnviðmiðið „möguleika á að bæta stöðu sína á vinnumarkaði með því að geta menntað sig og börn sín“. Bönkum gæti þannig í einhverjum tilfellum verið gert með lögum að neita fólki um lán til fasteignakaupa á þeim forsendum að það eigi jafnan rétt á við aðra til menntunar, og því verði að gera ráð fyrir að lágmarki miðgildisútgjöldum til hennar, sem árið 2018 nam tæpum 60 þúsund krónum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .