Neysluvísitala í Bandaríkjunum jókst umfram væntingar í janúar. Þó má rekja það að einhverju leyti til hækkandi verðlags að því er Bloomberg fréttaveitan greinir frá.

Viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna birti í dag nýjar tölur um neyslu landsmanna og þar kemur í ljóst að neysluvísitalan jókst um 0,4% í janúar. Hins vegar hefur verðbólga í Bandaríkjunum einnig aukist um 0,4% og verð á matvörum og eldsneyti hefur hækkað.

Hagfræðingar hafa varað við því að verðbólgukreppa myndist í Bandaríkjunum en það felur í sér að hagkerfið hjaðnar á sama tíma og verðbólga eykst.

Seðlabankastjóri Bandaríkjanna, Ben Bernanke sagði í lok síðustu viku að hann eigi ekki von á verðbólgukreppu. Hann sagði að verð á olíu, matvötum og hrávörum eiga eftir að leiðrétta sig.

Þá gaf hann einnig í skyn að Seðlabankinn kynni að lækka stýrivexti sína.