Ómar Valdimarsson hefur verið forstjóri Samkaupa frá árinu 2009. Verslanir félagsins ganga um þessar mundir í gegnum endurnýjun og hefur keðjan Kjörbúðin verið kynnt til sögunnar.

Samkaup hafa verið að endurnýja verslanir sínar víða um land og koma upp nýrri keðju. Getur þú sagt mér aðeins nánar frá því verkefni?

„Stærsta verkefnið sem við höfum verið að takast á við undanfarið er endurnýjun á búðunum okkar. Hún felst í því að breyta og uppfæra 35 verslanir eða 75% af verslunum okkar. Á síðasta ári og á þessu ári fjárfestum við um einn milljarð króna í þessum uppfærslum. Breytingarnar felast fyrst og fremst í því að breyta Samkaups verslunum víða um land þannig að þær munu mynda nýja keðju sem heitir Kjörbúðin. Í lok árs 2015 var samið við dönsku markaðsstofuna Kunde & Co til að aðstoða okkur í þessu verkefni. Hún hófst handa í upphafi árs 2016 og um vorið var hugmyndavinnan, greiningin, kannanir meðal viðskiptavina og úrvinnslan búin. Þá fór allt í gang með hönnun á útliti og fleiru, sem og undirbúningur að innleiðingu. Þann 29. október á síðasta ári var haldinn vinnudagur þar sem Kjörbúðin var kynnt fyrir starfsmönnum og viku síðar var fyrsta Kjörbúðin opnuð. Í dag eru Kjörbúðirnar orðnar 14 talsins.

Hugmyndin á bak við Kjörbúðina er að búa til búðina í bænum sem uppfyllir óskir neytenda um hagstætt verð, vöruúrval og meiri þjónustu. Það sem hafði gerst víða á landsbyggðinni var að fólk leit ekki lengur á búðirnar sínar sem valkost til að gera nauðsynlegustu innkaupin. Það var hluti af lífsmynstrinu að keyra vikulega á næsta þéttbýlisstað til að kaupa nauðsynjar. Með þessu vildum við gera viðskiptavinum okkar á landsbyggðinni kleift að kaupa daglega allar helstu nauðsynjavörur á samkeppnishæfu verði. Þetta er mikilvægt vegna þess að jafnaði á fólk erindi í búðina tvisvar eða þrisvar í viku. Það er eiginlega enginn staður sem skiptir meira máli í hverju samfélagi heldur en búðin. Það eiga allir erindi í búðina. Hún er hjartað í hverju samfélagi.

Á síðasta ári voru fjórar búðir uppfærðar í lágvöruverslunina Nettó og núna á föstudag mun ný Nettó verslun opna á Ísafirði. Krambúðir, sem eru þægindaverslanir, eru orðnar fjórar og þeim mun fjölga fyrir sumarið. Við stefnum að því að vera með 16 Nettó búðir, 20 Kjörbúðir og 11 Krambúðir þegar þessum breytingum lýkur.

Viðtökurnar hafa verið mjög góðar og þetta er strax farið að skila aukinni veltu. Velta félagsins á síðasta ári var rúmir 24 milljarðar króna og jókst um 10% milli ára.“

Verð ekki eini áhrifavaldurinn

Hvernig hefur dagvörumarkaðurinn verið að þróast undanfarin ár?

„Dagvörumarkaðurinn hefur í raun lítið breyst undanfarin ár. Hagar hafa verið í markaðsráðandi stöðu um nokkurt skeið. Það er áskorun fyrir aðra aðila á markaðnum eins og Samkaup að keppa við svona stóran aðila. Hvað verðlag varðar hefur það þjappast mikið. Lágvöruverslanirnar – Bónus, Nettó og Krónan – eru með lægstu verðin en þau eru á nákvæmlega sama stað í verðlagi. Það hefur heldur ekki breyst mikið. Munurinn á þessum félögum sést best í afkomutölum þeirra.

Hvað okkur varðar náum við að bjóða lág verð í krafti stærðarhagkvæmni. Meðal annars hjálpar innkaupasambandið við Coop í Danmörku mikið. Við reynum síðan að aðgreina okkur frá öðrum með því að vera með fjölbreyttara og meira vöruúrval – öðruvísi vöru, ferska vöru í háum gæðaflokki, einkum ávexti og grænmeti. Almennt er það þannig á þessum markaði að aðeins sá sem er með bestu innkaupskjörin getur verið með bestu verðin. En maður veltir fyrir sér; hversu vel er aðilinn með bestu kjörin að láta neytendurna njóta góðs af árangri í innkaupunum? Til þess að innkaupskjörin skili sér í sem lægstu verði til neytenda þarf að vera virk samkeppni á markaðnum. Og samkeppni virkar ekki nema nokkrir jafnir kraftar séu að takast á.“

Finnur dagvörumarkaðurinn mikið fyrir hagsveiflunni?

„Sveiflur á dagvörumarkaðnum eru vægari og lengri heldur en hagsveiflan. Þannig fór íslenski dagvörumarkaðurinn ekki að taka við sér fyrr en haustið 2015. Það verður að hafa í huga að matvara hegðar sér allt öðruvísi en aðrar vörur. Þú getur frestað því að kaupa nýtt sófasett, en þú þarft alltaf að kaupa þér að borða. Í matvöru er það ekki þannig að þú kaupir þér fimm T-bone-steikur þegar kaupmáttur er í hámarki. En þú leyfir þér kannski að kaupa þér T-bone-steik í staðinn fyrir kjötfars.

Almennt er dagvöruverslun viðkvæmust fyrir breytingum í kostnaði. Ástæðan er sú að álagningin sem dagvöruverslun vinnur á er mjög lág. Álagningarumhverfið er allt annað en í annarri verslun.

Stærsti innlendi áhrifaþátturinn er launaþátturinn en breytingar þar sjást í verði vara hjá innlendum framleiðendum eins og í beinum rekstrarkostnaði verslana. Stærsti erlendi áhrifaþátturinn er gengi krónunnar. Síðustu ár hefur innlendur kostnaður verið að hækka, svo sem í innlendum aðföngum, orku og launum. Á móti hefur erlendur kostnaður lækkað, sérstaklega í sambandi við vöruinnkaup. Það hefur verið verðhjöðnun erlendis, sem er að miklu leyti drifin áfram af lægra olíuverði, en einnig hefur sterk króna skilað okkur auknum kaupmætti í innkaupum. Samsetningin á vöruframboði okkar er þannig að í kringum 60% af dagvörunni okkar, til dæmis mjólk, brauð, kjöt, drykkir og grænmeti, eru íslenskar vörur.“

Hvað skiptir mestu máli í verslun?

„Það sem skiptir mestu máli í verslun er að neytandinn fái að upplifa val og frelsi. Þetta á bæði við um verslanir og vörur. Þegar verið er að mæla árangur, til dæmis í verðkönnunum eða í almennum rekstri, er eiginlega aldrei tekið tillit til þess hversu mikið val neytandinn hefur. Það er slæmt, vegna þess að valfrelsi neytandans skiptir okkur máli. Ef þú þjónustar ekki neytandann eins og hann vill, þá nærðu engum árangri í þessum bransa. Það hafa allir hagsmuni – neytendur, framleiðendur og verslanir – en menn leysa þessa hagsmuni á markaði. Og neytandinn er kóngurinn á markaðnum. Hann ræður ferðinni. Þess vegna óttast ég ekkert innflutning á erlendum vörum og er almennt ekki hlynntur miklum tollum eða sköttum.“

Nánar er rætt við Ómar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .