*

laugardagur, 16. janúar 2021
Frjáls verslun 28. desember 2020 14:02

Neytandinn finni ekki muninn

Liv Bergþórsdóttir, forstjóri ORF Líftækni, segir neytandann ekki eiga að finna mun á bragði, áferð, lykt eða hljóði ræktaðs kjöts og hefðbundins kjöts.

Andrea Sigurðardóttir
Liv Bergþórsdóttir, forstjóri ORF Líftækni, í gróðurhúsi fyrirtækisins í Grindavík.
Gunnar Svanberg

Liv Bergþórsdóttir, forstjóri ORF Líftækni, ræðir um nýja vöru sem fyrirtækið er að þróa, MESOkine, í viðtali í tímaritinu Frjálsri verslun sem kom út á dögunum. Um er að ræða dýrafrumuvaka sem nýtast við stofnfrumuræktun á kjöti. Hún segir að til að byrja með verði stofnfrumuræktað kjöt í einfaldari kantinum.

„Fyrst um sinn verður stofnfrumuræktað kjöt einhvers konar hakk, til dæmis í hamborgara, pylsur og slíkt, enda flóknara að rækta heila steik. Stofnfrumuræktuðu kjöti er hins vegar ætlað að komast alla leið í steikina og er töluvert litið til þrívíddar prenttækni í því samhengi. Mögulega verður sú tækni nýtt með einhverjum hætti til þess að búa til hina raunverulegu steik. Stofnfrumuræktað kjöt á að ganga lengra en plöntukjöt, að því leyti að neytandinn á ekki að finna mun á bragði, áferð, lykt eða hljóði. Neytandinn á að geta sett steikina á grillið og það á að kveikja á öllum skynfærum með nákvæmlega sama hætti og hefðbundin steik frá slátruðu dýri. Markmiðið er að neytandinn finni ekki muninn, sama hvaða tegund af kjöti það er," segir Liv.

Liv bendir á að margir sem borða kjöt í dag séu orðnir mjög meðvitaðir um að draga úr kjötneyslu, hvort sem það er af umhverfis- eða siðferðisástæðum og telur hún að stofnfrumuræktað kjöt muni höfða til þessa hóps.

„Það eru sífellt fleiri að verða meðvitaðir um neikvæð áhrif kjötneyslu, og farnir að draga meðvitað úr henni, en eru þó ekki tilbúnir til þess að skipta alfarið yfir í plöntukjöt þar sem það veitir ekki alveg þessa einu sönnu kjötupplifun. Með stofnfrumuræktuðu kjöti verður upplifunin nákvæmlega sú sama og mun því vafalaust höfða vel til þessa sívaxandi hóps kjötunnenda sem láta sjálfbærni og dýravernd sig varða."

Þjáningarlaust foie gras

Flest þeirra fyrirtækja sem vinna að þróun stofnfrumuræktaðs kjöts leggja áherslu á það kjöt sem mest er framleitt af, á borð við nautakjöt, svínakjöt og kjúkling, en að sögn Livar er það þó ekki algilt.

„Við sjáum fjölda sérhæfðra fyrirtækja sem ekki eru að horfa til þess kjöts sem er megnið af uppistöðu kjötframleiðslu í dag. Ástralska fyrirtækið Vow Foods sérhæfir sig til dæmis í stofnfrumuræktuðu kengúrukjöti og Shiok Meats í Singapúr sérhæfir sig í rækju soðkökum (e. shrimp dumplings) úr stofnfrumuræktuðum rækjum," segir Liv.

Foie gras, sem framleidd er úr anda- eða gæsalifur, hefur sætt harðri gagnrýni í gegnum tíðina vegna þeirrar þjáningar sem framleiðslan veldur fuglunum. Liv segir frá því að franska sprotafyrirtækið Gourmey sérhæfi sig í að nýta stofnfrumur úr andareggjum til að framleiða foie gras.

„Margir spá því að foie gras verði fyrsta stofnfrumuræktaða kjötið sem kemur á markað. Foie gras er sennilega mjög ofarlega á lista hjá flestum, meira að segja kjötætum, yfir matvæli sem fólk vill að verði framleidd með siðferðislegri hætti. Markmið Gourmey er að fólk geti farið á veitingastaði eða út í búð og keypt stofnfrumuræktað foie gras, án þess að finna nokkurn mun á því og hefðbundnu foie gras, nema þá helst að geta borðað það með hreinni samvisku."

Nánar er fjallað um málið tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út nýlega. Hægt er að kaupa eintak af tímaritinu hér eða gerast áskrifandi hér.