Neytendasamtökin opna á næstu dögum skrifstofu á Akureyri, í Alþýðuhúsinu við Skipagötu. Jafnframt hefur Brynhildur Pétursdóttir, fyrrum Alþingismaður Bjartrar framtíðar, verið ráðin aftur til samtakanna. Hún verður í forsvari fyrir starfsemi Neytendasamtakanna fyrir norðan. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Um árabil ráku Neytendasamtökin skrifstofu á Akureyri en henni var lokað fyrir nokkrum árum. Það er mikið ánægjuefni að nú skuli hafa skapast aðstæður, sem gera samtökunum kleift að opna að nýju skrifstofu á Norðurlandi. Neytendasamtökin starfa á landsvísu og opnun skrifstofunnar á Akureyri er mikilvægt skref að því markmiði að veita öllum félagsmönnum, sama hvar þeir búa á landinu, sem besta þjónustu,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

Brynhildur mun jafnframt ritstýra Neytendablaðinu og hafa umsjón með heimasíðu samtakanna.

Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna, segir að Brynhildur hafi góða yfirsýn yfir málefni og hagsmunamál neytenda. „Hún býr yfir umfangsmikilli reynslu bæði af vettvangi Neytendasamtakanna og á Alþingi Íslendinga. Hún er öflugur liðsmaður í baráttunni fyrir réttindum og hagsmunum neytenda og ég býð hana hjartanlega velkomna til starfa,“ tekur hann jafnframt fram í tilkynningunni.