Stjórn Neytendasamtakanna fagnar því að Alþingi hefur samþykkt lög um innheimtustarfsemi og segir að með lögunum séu settar mikilvægar reglur um hverjir megi stunda innheimtustarfsemi.

„Undanfarin mörg ár hefur frumvarp um þetta efni ítrekað verið lagt fram á Alþingi, en alltaf dagað uppi í nefnd. Þessi lagasetning hefur um árabil verið baráttumál samtakanna og nauðsynleg vörn fyrir einstaklinga sem eiga í fjárhagsvandræðum,“ segir á vef samtakanna.

Þá kemur fram að Fjármálaeftirlitið og úrskurðarnefnd lögmanna annist eftirlit með því að innheimtan samræmist „góðum innheimtuháttum.“

Einnig taka lögin til þess hvernig staðið skuli að innheimtu með tilkynningum til skuldara.

„Sá aðili sem innheimta beinist að velur ekki innheimtuaðila heldur er það skuldareigandi. Samningsstaða skuldara er því engin þegar kemur að kostnaði vegna innheimtu. Í lögunum er heimild fyrir viðskiptaráðherra til að setja þak á þóknun innheimtuaðila með reglugerð. Neytendasamtökin telja brýnt að viðskiptaráðherra nýti þessa heimild um leið og lögin taka gildi sem er um næstu áramót,“ segir á vef Neytendasamtakanna.