Neytendasamtökin segja á vef sínum í dag að í framhaldi af styrkingu krónunnar síðustu daga séu birgjar og innlendir framleiðendur byrjaðir að lækka verð á vörum sínum.

Þá hafa Neytendasamtökin ákveðið að birta upplýsingar á heimasíðu sinni um þessar lækkanir „til að upplýsa neytendur og að hvetja aðra birgja til að lækka verð hjá sér,“ eins og það er orðað á vef samtakanna.

„Jafnframt ætlast Neytendasamtökin til þess að þetta skili sér til neytenda þegar þeir versla, það er von samtakanna að þetta verði hvatning til allra að lækka verð,“ segir á vef samtakanna.

Þá hvetja Neytendasamtökin birgja og innlenda framleiðendur að láta samtökin vita lækki þeir verðið á netfang samtakanna, [email protected] .

Sjá nánar vef Neytendasamtakanna.