Neytendasamtökin minna, á vef sínum , á að aukinn kostnaður vegna langs opnunartíma fer út í verðlagið og ekki bara í þeirri verslun sem opin er heldur einnig í öðrum útibúum keðjunnar þar sem vöruverð er það sama í öllum verslunum.

Í grein Neytendasamtakanna, sem ber fyrirsögnina „Opið í 24 tíma - Að kröfu neytenda?“ er minnst á þá nýjung sem Hagkaup boðaði í morgun um að hafa eina  af verslunum sínum opna allan sólarhringinn.

„Það vekur óneitanlega athygli að svo margir flykkjast í verslanir seint um kvöld og að næturlagi að það borgi sig að hafa opið,“ segir á vef Neytendasamtakanna.

Þá minna Neytendasamtökin á að þau hafi í „baráttu sinni fyrir lægra vöruverði,“ eins og það er orðað á vef samtakanna, bent á að verslanir geti hagrætt t.d. með styttri opnunartíma og færri útibúum og jafnvel haft lokað á sunnudögum.

„Stjórnendur verslana segja að þeir séu að koma til móts við viðskiptavini sína með því að hafa opið alla daga vikunnar langt fram á kvöld. Þá hafa verslanir lagt í kostnaðarsamar aðgerðir til að auka fermetra verslunarrýmis eftir sögn að kröfu neytenda,“ segir á vef samtakanna.

„Ekki hefur gengið jafnvel að koma á móts við kröfur neytenda um lægra vöruverð, sem er ein mikilvægasta krafan að mati Neytendasamtakanna.“   Þá segir jafnframt:

„Neytendum er bent á, þegar keyptar eru dýrar og tæknilegar vörur eins og heimilistæki, húsgögn og tölvuvörur, að þeir starfsmenn sem þekkja vörurnar best og geta veitt viðskiptavinum sínum nákvæmari upplýsingar eru oftast í fríi um helgar og að nóttu til. Því vilja Neytendasamtökin mæla með því að neytendur spyrji um þann starfsmann sem þekkir best til og fái hjá þeim leiðbeiningar og upplýsingar um vörur áður en gengið er frá kaupum.“