Neytendasamtökin birta í dag á vef sínum upplýsingar um það hvernig flugfarþegar geta brugðist við ef flugmiði hefur verið keyptur hjá fyrirtæki sem verður gjaldþrota.

Hingað til hefur aðeins eitt íslenskt flugfélag flogið áætlunarflug til Bandaríkjanna en eins og fram hefur komið í fjölmiðlum mun Iceland Express hefja áætlunarflug til Bandaríkjanna næsta sumar en hjá báðum fyrirtækjum er hægt að bóka miða nokkuð langt fram í tímann.

„[...]mörgum finnst óþægilegt að kaupa flugmiða með marga mánaða fyrirvara í umhverfi þar sem jafnvel traustustu fyrirtæki, að því er virtist, hafa orðið gjaldþrota. Þessar áhyggjur eru skiljanlegar og því hafa Neytendasamtökin tekið saman nokkur atriði sem varða rétt neytenda á ferðalagi,“ segir á vef Neytendasamtakanna.

Fram kemur að hafir þú keypt flugmiða hjá fyrirtæki sem verður gjaldþrota, ertu fljótt á litið illa settur. Það eru engar bætur að hafa og þú hefur tapað þínu fé. Ef þú ert staddur erlendis þarftu sjálfur að sjá um flutning heim. Það eru þó einhver kreditkortafyrirtæki sem geta kannski afturkallað greiðslu. Ef þú hefur greitt með kreditkorti, hafðu þá samband við kortafyrirtækið og kannaðu möguleikana.

Þá kemur jafnframt fram að hafir þú keypt ferð með flugi og hóteli af heimasíðu fyrirtækisins er ferðin mjög sennilega skipulögð af ferðaskrifstofu og benda Neytendasamtökin á að best sé að hafa samband við hana.

Sjá nánar á vef Neytendasamtakanna.